Óljóst hversu mikið tap verður á sjóðum Glitnis

Lokað var fyrir viðskipti þriggja sjóða Glitnis í gær, Sjóði 9, sem er peningamarkaðssjóður sem stýrir um 230 milljörðum króna, Sjóði 1 og Sjóði 9 evrusjóði bankans. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins úr Glitni var þessi ákvörðun tekin í gærmorgun, vegna þess að í kjölfar hruns á hlutabréfum Glitnis var staðan sú að ekki voru fullnægjandi veð lengur fyrir hendi í öllum sjóðunum fyrir þeim skuldabréfum sem sjóðirnir, einkum Sjóður 9 hafa keypt af fyrirtækjum. Þannig skulduðu Stoðir sjóðnum allnokkra milljarða króna.

Í tilkynningu frá Glitni Sjóðum sagði m.a. í gær: „Til að vernda hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina í Sjóði 9, Sjóði 1 og Sjóði 9 EUR og tryggja verðmæti eigna verða þessir sjóðir lokaðir í dag, þriðjudaginn 30. september.“

Bankinn hefur heimild til þess að stöðva viðskipti þessara sjóða, þegar svo mikill órói er á mörkuðum, eins og nú er. Viss óvissa er með sjóðina, vegna þess að í ákveðnum tilvikum skortir á að fullnægjandi ábyrgðir séu fyrir hendi. Forsvarsmenn Glitnis höfðu stefnt að því að opna fyrir viðskipti sjóðanna sem allra fyrst, en örugglega fyrir helgi. Meginkapp var lagt á að tryggja að höfuðstóll eigendanna rýrnaði ekki.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að meðal skuldabréfa sem liggja inni í Sjóði 9 sé skuldabréf upp á 10 milljarða króna frá Baugi. Fullyrt var við Morgunblaðið í gær að nægar ábyrgðir væru að baki skuldabréfum Baugs í sjóðunum en öðru máli gegndi með skuldabréf frá Stoðum. Unnið væri að því af fullum krafti að greiða úr þessum málum og höfuðkapp lagt á að tryggja hag eigenda sjóðanna sem best.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ýmsir sparifjáreigendur, sem hafa fremur kosið að leggja sparifé sitt í peningamarkaðssjóði en á hefðbundnar sparisjóðsbækur, vegna þeirrar góðu ávöxtunar sem slíkir sjóðir hafa skilað á undanförnum árum, séu nú mjög uggandi um sinn hag. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort eigendur hlutdeildarskírteina í ofangreindum sjóðum verða fyrir fjárhagslegu tjóni, eða hversu miklu, ef um tjón verður að ræða á annað borð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »