Var ekki að viðra hugmyndir um þjóðstjórn

Ríkisstjórn Íslands við Bessastaði.
Ríkisstjórn Íslands við Bessastaði. mbl.is/Júlíus

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum Sjónvarpsins, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefði ekki verið að viðra hugmynd um þjóðstjórn á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Sagði Geir að það væri einhver misskilningur sem hefði komist á kreik.

„En auðvitað er það ekki hans mál, það er mál stjórnmálaflokkanna. En ég tel ekki að hann hafi verið að seilast þangað inn með því sem hann kann að hafa látið út úr sér," sagði Geir.

Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Guðni Ágústsson hvöttu til þess í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld að komið yrði á samráðsvettvangi stjórnmálamanna, atvinnulífs og fjármálastofnana, helst á morgun til að berjast við þann vanda sem nú er við að etja.

Geir sagði um það, að sér hefði þótt ágætur tónn heilt yfir í máli stjórnarandstæðinga í umræðunni og það væri jákvætt að þeir lýsi sig fúsa til samstarfs. En ábyrgðin á landsstjórninni væri hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnin muni leita til þeirra eftir atvikum. „En ég tel ekki hyggilegt að efna til vettvangs með fulltrúum allra flokka auk allra annarra án þess að það sé betur undirbúið," sagði Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert