Mjög gott skref

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/G.Rúnar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar því að ríkisstjórn Íslands hafi óskað eftir formlegum samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) um að koma á efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. „Mér finnst þetta vera mjög gott skref,“ segir Vilhjálmur.

Spurður út í upphæðina, tvo milljarða dala, segir Vilhjálmur að hún verði eflaust bara hluti af stærri pakka sem aðrar þjóðir muni koma að í framhaldinu.  

Hann bendir á að allar aðrar þjóðir muni koma til með að nota þá vinnu sem starfsmenn IMF hafa unnið hér á landi, þ.e. við að rannsaka og greina stöðuna. 

Aðspurður segir Vilhjálmur að Samtök atvinnulífsins hafi átt í samskiptum við sendinefnd IMF, sem hefur verið hér á landi. Farið hafi verið yfir stöðu mála en ekki hvernig mál muni lenda með nákvæmum hætti. Það muni brátt koma í ljós.

Vilhjálmur segir mikilvægt að koma gjaldeyrisviðskiptunum í eðlilegt horf og fjármálaþjónustunni af stað. „Síðan förum við að skapa eðlileg starfsskilyrði fyrir atvinnulífið varðandi vexti og verðbólgu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina