Salan dregst saman um 40%

mbl.is/Brynjar Gauti

Ferðaskrifstofur sem selja Íslendingum utanlandsferðir finna verulega fyrir efnahagskreppunni. Á starfsmannafundi hjá Úrval-Útsýn í gærkvöldi var tilkynnt um 50% lækkun starfshlutfalls hjá öllum starfsmönnum. Þeir eru um 65 talsins. Þetta var gert til þess að forðast uppsagnir, að sögn Þorsteins Guðjónssonar forstjóra.

Um 90% af tekjum Úrvals-Útsýnar fer í að greiða erlendan kostnað. Félaginu hefur, fram að þessu, tekist að afla gjaldeyris og koma honum til viðskiptavina í útlöndum en Þorsteinn segir að þetta hafi verið mikil barátta á hverjum degi.

Sala á utanlandsferðum hjá félaginu hefur dregist saman um a.m.k. 40% miðað við sama tíma í fyrra. Salan glæddist þó í síðustu viku. Aðspurður hvort hætta sé á að fyrirtækið komist í þrot segir Þorsteinn að það sé nauðsynlegt fyrir fyrirtæki í þessum geira að koma fjármunum til erlendra birgja. Tæknilega geti fyrirtæki lent í þroti ef peningarnir komast ekki á réttan stað á réttum tíma. Íslensk fyrirtæki hafi ekki mikið lánstraust út fyrir 200 mílurnar og erlendir birgjar taki ekki við farþegum nema greiðsla hafi borist. Neiti flugfélag að fljúga geti mikill kostnaður skyndilega lent á viðkomandi ferðaskrifstofu. „Staðan er mjög viðkvæm,“ segir hann.

Móðurfyrirtæki Heimsferða er Primera Travel Group en Andri Már er forstjóri og eigandi fyrirtækisins. Andri segir söluna hjá Heimferðum mjög rólega þessa stundina en hún hafi dregist saman um allt að 40% frá í fyrra. Félagið hafi fellt niður flestar sínar ferðir í nóvember en ætli að setja meiri kraft í sölustarfsemina um jólin. „Síðan ætlum við ekkert að gefa aftur í fyrr en um páska og næsta sumar,“ segir hann.

Hefðbundnir áfangastaðir haldi sínu þó ágætlega, s.s. Kanaríeyjar, Tenerífe og vinsælir skíðastaðir. Að sögn Andra er samdráttur í sölu á ferðum á vegum Heimsferða nærri 40% og hann býst við að ástandið verði svipað næstu mánuði.

„Blessunarlega erum við með afar sterkan efnahag. Heimsferðir eru hluti af Primera Travel Group sem veltir yfir 100 milljörðum króna á ári og er með starfsemi á öllum Norðurlöndunum og Írlandi. Um 6% af okkar viðskiptum eru á Íslandi. Ef helmingurinn af viðskiptunum væri á Íslandi þá þætti mér ekki bjart framundan, segir Andri. 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert