Tekinn átta sinnum á rúmum þremur mánuðum

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun mann á þrítugsaldri til greiðslu 950 þúsund króna í sekt og svipti hann ökuleyfi í 3 ár og tíu mánuði fyrir ítrekaðan akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Maðurinn var tekinn átta sinnum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna á rúmlega þriggja mánaða tímabili eða frá 22. mars 2008 til 4. júlí 2008. Oftast var hann undir áhrifum amfetamíns en einnig MDMA og kókaíns.

Þá var maðurinn í águst í sumar tekinn fyrir hraðakstur en hann hafði þá verið sviptur ökuréttindum.

Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi. Hann hefur þrisvar sinnum hlotið sektarrefsingu fyrir brot á fíkniefnalöggjöf og einu sinni verið gerð sekt vegna auðgunarbrots. Fyrri brot hans höfðu ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir fíkniefnaaksturinn.

Auk sektar og ökuleyfissviptingar var manninum gert að greiða allan málskostnað, samtals rúmlega eina milljón króna. Þá voru gerð upptæk 24,61 g af amfetamíni og 3,09 g af kókaíni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert