Óánægja með hækkun strætófargjalda

Beðið eftir strætó.
Beðið eftir strætó. mbl.is/hag

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að hækkun á fargjaldi með Strætó bs. úr 280 kr. í 840 kr. verði endurskoðuð og dregin til baka að stórum hluta. 

Strætó bs. mun taka upp nýtt fyrirkomulag á gjaldskrám sínum. Þeim verður skipt eftir fargjaldasvæðum eða „sónum“ (zones). Verða svæðin fjögur og mun kosta þrisvar sinnum meira að ferðast á fargjaldasvæði þrjú en svæði eitt. Til dæmis verður höfuðborgarsvæðið innan fargjaldasvæðis eitt, gert er ráð fyrir að Borgarnes og Árborg falli undir svæði fjögur sé lagt upp frá Reykjavík en Hveragerði og Akranes undir fargjaldasvæði þrjú.

„Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness nýta sér strætó þannig að ljóst er að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir okkar félagsmenn sem og alla Akurnesinga að ræða. Bæjaryfirvöld á Akranesi þurfa svo sannarlega að útskýra fyrir Akurnesingum á hvaða forsendu þessi hækkun er byggð því það er ljóst að sá hópur sem hefur verið að nýta sér þessa þjónustu mun ekki sætta sig við þessa hækkun,“ segir á vef VLFA.

Þar segir jafnframt að þeir sem hafi verið að nýta sér þessa þjónustu ætli að hittast á Skrúðgarðinum á morgun kl. 15 til að fara yfir málið.

„Einnig verður óskað eftir því að bæjarfulltrúar mæti til að skýra þessa ótrúlegu hækkun því með henni er verið að kippa grundvellinum undan fólki sem stundar nám og atvinnu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir á vef VLFA.

mbl.is