Beitti piparúða á mótmælendur

mbl.is/Júlíus

Lögreglan hefur beitt piparúða til að hrekja mótmælendur úr fordyri Hótels Borgar. Mikill hiti er í fólki og kemst Geir H. Haarde forsætisráðherra ekki inn en hann var seinna á ferðinni en aðrir formenn stjórnmálaflokkanna þar sem hann var að taka upp áramótaávarp sitt.

Mótmælendur hafa unnið skemmdir á eigum Hótels Borgar og einnig Stöðvar 2, t.d. slitið útsendingarsnúrur, sem hefur valdið því að útsending rofnaði í stutta stund.

Þá upplýsti Sigmundur Ernir Rúnarsson þáttastjórnandi að ekki væri hægt að koma inn fleiri myndavélum vegna aðgerða mótmælenda.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, sagðist efast um að þeir sem mótmæltu fyrir utan Hótel Borg væru fulltrúar íslensku þjóðarinnar. Hún sagðist gera skýran greinarmun á þessum mótmælum og friðsamlegum fjöldamótmælum á Austurvelli undanfarnar vikur.

Sjúkrabílar eru nú mættir við Austurvöll svo unnt sé að sinna þeim sem fengu piparúða í augun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert