Frjáls undan oki auðjöfra

Sigmundur Ernir Rúnarsson og Elín Sveinsdóttir
Sigmundur Ernir Rúnarsson og Elín Sveinsdóttir mbl.is/Ómar

„Við fengum mjög óljósar skýringar á uppsögninni en það er klárt að nýir stjórnendur á fréttastofunni vilja ekki nærveru okkar. En nú erum við frjáls undan oki auðjöfranna,“ sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Honum var í morgun sagt upp störfum á Stöð 2. Eiginkonu hans, Elínu Sveinsdóttur, útsendingarstjóra var einnig sagt upp en bæði hafa starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi eða árinu 1986.

„Þetta eru þakkirnar til okkar hjóna eftir öll þessi ár. En ég lít í sjálfu sér ekki á það sem mikla höfnun að vera rekinn af manni eins og Ara Edwald. Ég er sár yfir því að missa samband við góða starfsvini en ég er ekki sár yfir því að yfirgefa það stjórnleysi sem hér ríkir,“ segir Sigmundur Ernir.

Á dögunum lét Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Markaðarins, viðskiptakálfs Fréttablaðsins af störfum. Þá var Sölva Tryggvasyni, einum umsjónarmanna Íslands í dag einnig sagt upp störfum.

Bloggi Sigmundar Ernis á Vísi sem tengist þætti hans Mannamáli, var lokað í morgun. Björn Ingi bloggar hins vegar áfram á Vísi.

mbl.is

Bloggað um fréttina