Táragasi beitt í Siglufirði 1959

Baksíða Morgunblaðsins 28. júlí 1959.
Baksíða Morgunblaðsins 28. júlí 1959.

Ofmælt hefur verið í fréttum að táragasi hafi ekki verið beitt hér á landi frá því 30. mars 1949 fyrr en í mótmælunum í fyrrinótt. Ábendingar hafa komið um að t.d. aðfaranótt sunnudagsins 26. júlí 1959 hafi orðið svo miklar róstur í Siglufirði að 11 lögreglumenn í bænum hafi ekki fengið við neitt ráðið og orðið að grípa til táragass.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá þessum tíma urðu átökin í landlegu síldveiðiskipa. Voru um 200 skip í höfn þessa helgi og mikil ölvun í bænum. Ólætin brutust einkum út á Hótel Höfn sem þá hafði nýlega verið gert upp, og allt brotið þar mélinu smærra sem og flestar rúður í húsinu.

Lögreglunni var tilkynnt um óspektirnar undir kl. 1 um nóttina þegar stór rúða í húsinu var brotin og mun það hafa verið upphaf ólátanna. Lögreglan var fámenn og fékk með engu móti ráðið við mannfjöldann utan við hótelið. Var þá gripið til þess ráðs að skjóta táragasi út þar til gerðri byssu yfir mannfjöldann til að rýma götuna. Virðist þá sem gasið hafi einnig borist inn í troðfullan danssalinn um loftventla eða með öðrum hætti og þá fyrst kastaði tólfunum samkvæmt frétt blaðsins.

„Um leið og fólkið í danssalnum fann gaslyktina var það í senn slegið ofsahræðslu og reiði. Varð hið mesta uppþot í salnum og réðust menn í unnvörpum á borð og stóla, allt brotið í spón og rúður mölvaðar í húsinu meira og minna. Hefur stórtjón orðið á þessu vistlega hóteli, tjón, sem mun kosta tugi þúsunda að bæta,“ segir í fréttinni.

Blaðið segir ennfremur að í þessum djöfulgangi og áflogum hafi orðið meiðsl á mönnum en þó enginn slasast alvarlega. Þá hafi verið framin skemmdarverk á færibandi síldarverksmiðju sem tekið hafi nokkrar klukkustundir að gera við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Magnús Þór Jónsson: Ha?
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert