Alvarlegt ef ný stjórn bannar hvalveiðar

mbl.is/ÞÖK

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands lýsir yfir eindregnum stuðningi við þá ákvörðun Sjávarútvegsráðherra, að heimila hvalveiðar. Í sama streng tekur Verkalýðsfélag Akraness. Félagið segir að það verði litið mjög alvarlegum augum ef þeir flokkar sem nú vinna að stjórnarmyndun taki upp á því hnekkja þessari ákvörðun.

Einar Kr. Guðfinnsson fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf í gær út reglugerð um veiðar á hrefnu og langreyði til næstu fimm ára og stóraukinn kvóta á þessum veiðitegundum. Leyfilegt verður að veiða allt að 150 langreyðar á árinu og 200 hrefnur. Þá er heimilt að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir.

Í yfirlýsingu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands er lýst yfir eindregnum stuðningi við ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila hvalveiðar og sagt að hún sé löngu tímabær.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir ljóst að þessi ákvörðun þýði mikla innspýtingu í atvinnulífið á Vesturlandi en fyrir liggur að vinnsla fer að einhverju leyti fram á Akranesi. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að samtök hrefnuveiðimanna hafi beint augum sínum að Akranesi sem framtíðarstað til útgerðar- og vinnslu.

Fljótlega eftir að sjávarútvegsráðherra kunngerði ákvörðun sína heyrðust raddir þess efnis að ný stjórn kynni að endurskoða hvalveiðiheimildir.

„Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun líta það mjög alvarlegum augum ef þeir flokkar sem nú vinna að stjórnarmyndun taki upp á því hnekkja þessari jákvæðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra, en slík ákvörðun myndi verða þess valdandi að á annað hundruð störf myndu ekki verða að veruleika,“ segir í ályktun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert