Ráðuneyti skipta um nöfn og hlutverk

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Helstu breytingar sem gerðar verða á skipulagi innan stjórnarráðsins eru þær, að stjórn efnahagsmála verður færð frá forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti til nýs efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra með blaðamönnum fyrir hádegið í dag.

Efnahagsskrifstofa forsætisráðuneytisins, Hagstofan og Seðlabanki Íslands flytjast yfir á svið hins nýja ráðuneytis 1. september næstkomandi í fyrsta áfanga og um næstu áramót. Frá fjármálaráðuneytinu fara þangað gerð þjóðhagsáætlana og þjóðhagsspár frá efnahagsskrifstofu. Eignarhald ríkisins í opinberum hlutafélögum verður fært til hins nýja ráðuneytis sömuleiðis.

Frumvarp forsætisráðherra um þetta hefur nú verið samþykkt í ríkisstjórn og verður nú sent þingflokkum stjórnarflokkanna til meðferðar. Frumvarpið verður svokallaður ,,bandormur".

Önnur aðalatriði í frumvarpinu eru þau að menntamálaráðuneytið mun eftirleiðis heita mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þá verða ýmsar menningarmálastofnanir fluttar frá forsætisráðuneytinu þangað, svo sem Gljúfrasteinn og Þjóðmenningarhúsið, Vesturfarasetur og Grænlandssjóður.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun eftirleiðis heita dóms- og mannréttindamálaráðuneyti og samgöngumálaráðuneytið mun eftirleiðis heita samgöngu og sveitarstjórnarmálaráðuneyti. Þessi tvö ráðuneyti eiga svo að flytjast í eitt ráðuneyti í lok kjörtímabilsins, innanríkisráðuneyti.

Þá verður Norðurlandaskrifstofa flutt úr forsætisráðuneytinu í utanríkisráðuneytið.

Neytendamál munu flytjast frá viðskiptaráðuneytinu til hins nýja dóms- og mannréttindamálaráðuneytis, svo sem ýmis verkefni Neytendastofu.

Eignarhald ríkisins í opinberum hlutafélögum verður fært frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins. Sem dæmi um slík félög má nefna Íslandspóst, landskerfi bókasafna, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Ríkisútvarpið. Fleiri atriði koma fram í frumvarpinu að sögn ráðherra.

Sagði Jóhanna Sigurðardóttir við blaðamenn að þessar breytingar myndu gera ráðuneytin mun skilvirkari og að viðkomandi verkefni myndu eiga mun betur heima á hinum nýju stöðum í stjórnkerfinu.

mbl.is