Rannsakar umfangsmikið fíkniefnasmygl

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur nú til rannsóknar ætlaðan innflutning á umtalsverðu magni af fíkniefnum til landsins. Að sögn lögreglu voru efnin falin inni á salerni í flugvél. Talið er að starfsmanni á flugvallarsvæði hafi verið ætlað að sækja efnin og koma þeim út af svæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Ekki kemur fram um hvaða efni er að ræða, né heldur magn.

Tveir menn hafa setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins en öðrum þeirra hefur nú verið sleppt úr haldi. Rannsókn málsins heldur áfram, segir ennfremur. 

Samtals hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum lagt hald á um 15,5 kg af fíkniefnum það sem af er árinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina