Hannes segist ekki hafa brotið lög

Hannes Smárason.
Hannes Smárason. mbl.is/Golli

Hannes Smárason, kaupsýslumaður, segist hafa lagt sig fram um að fylgja þeim lögum og reglum, sem viðskiptalífinu hafi verið sett. Segist Hannes sannfærður um, að niðurstaða á rannsókn á gerðum hans verði sú að engin lög eða reglur hafi verið brotin.

Fram kemur, að Hannes hefur ákveðið að kæra til Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá í gær um að húsleitir og haldlagningar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hafi verið lögmætar.

Segir hann að lögmaður sinn hafi í gær sent bréf til ríkislögreglustjóra með ítarlegum útskýringum og gögnum varðandi öll rannsóknartilvik og grunur ríkislögreglustjóra sé hrakinn. Er þess krafist í bréfinu, að rannsókn lögreglu á sakargiftum á hendur Hannesi verði látin niður falla.

Vildu mynda stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu

Í bréfinu er m.a. farið yfir kaup FL Group á danska flugfélaginu Sterling  árið 2005. Þar kemur fram, að Hannes hafni því alfarið að Sterling hafi keypt félagið á yfirverði og þá hafi ríkislögreglustjóri ekki útskýrt hvernig viðskipti með hlutabréf geti verið refsiverð þótt hægt sé að færa fyrir því rök að verð hafi verið hátt.

Þá segir að stjórn FL Group en ekki Hannes hafi tekið ákvörðun um kaupin, sem hafi verið alfarið á ábyrgð stjórnarinnar. Viðskiptalegar forsendur hafi verið að baki kaupunum: áform um samruna Sterling og enska lággjaldafélagsins easyJet, sem FL Group átti 16,2% hlut í á þessum tíma, en þá hefði orðið til stærsta lággjaldaflugfélag í Evrópu. 

Færsla milli bankareikninga FL Group

Um millifærslu á 46,5 milljónum dala til Kaupthing Bank Luxemborg árið 2005 segir í bréfi lögmannsins, að um hafi verið að ræða færslu milli bankareikninga í eigu félagsins en ekki ólögmæta lánveitingu til Hannesar. Hvorki Hannes né aðili honum tengdur hafi tekið við fénu.

Í bréfinu er einnig farið yfir viðskipti með fasteignirnar Fjölnisveg 9 og 11 og samskipti FI fjárfestinga, félags Hannesar, við FL Group. Segir í bréfinu að Hannes hafi átt fleiri hundruð milljóna króna kröfu á hendur FI fjárfestingum. Ekki hafi verið um að ræða ólöglegar lánveitingar FL Group til Hannesar.   

mbl.is

Bloggað um fréttina