Fyrirvarar þingsins hljóta að halda

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, blaðar í skjölum meðan á þingumræðu stendur.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, blaðar í skjölum meðan á þingumræðu stendur. mbl.is/Eggert

„Þeir fyrivarar sem Alþingi setur með meirihluta hér á þingi, þeir hljóta að halda,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra við umræður um Icesave-frumvarpið á Alþingi í dag. Margir stjórnarandstæðingar hafa lýst efasemdum við umræðurnar um að fyrirvararnir við ríkisábyrgðina muni halda.

Össur sagðist taka undir þau ummæli að fyrirvararnir „muni ekki renna ljúflega niður“ hjá aðilum málsins. „Alþingi er fullvalda,“ sagði hann. „Alþingi er fulltrúi þjóðarinnar allrar. Það ræður fyrir Íslendingum.“

„Það er Alþingi sem tekur ákvarðanir um þetta mál fyrir hönd Íslendinga og enginn annar getur það. Ef þessir fyrirvarar eru þannig að þeir takmarka með einhverjum hætti ábyrgð íslenska ríkisins, þá hlýtur niðurstaða íslenska þingsins um það að gilda. Ég tel sjálfur að það þurfi engan sérstakan aðila til að skera úr um það,“ sagði Össur.

mbl.is