Siðferðisbrot en ekki agabrot

Séra Gunnar Björnsson.
Séra Gunnar Björnsson.

Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar hefur hafnað kröfu sóknarnefndar Selfosskirkju um að séra Gunnari Björnssyni fái ekki að gegna starfi sóknarprests. Úrskurðarnefndin telur að séra Gunnar hafi ekki gerst sekur um agabrot, en hann hafi gerst sekur um siðferðisbrot. Brotin feli í sér „háttsemi sem prestur hvorki eigi né megi sýna af sér, gagnvart slíkum einstaklingum."

Ríkisaksóknari höfðaði mál gegn séra Gunnar fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum. Hann var sýknaður í héraðsdómi og féllst Hæstiréttur á þá niðurstöðu. Sóknarnefnd Selfosskirkju vísaði málinu til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og fór fram á að mælt væri fyrir um að séra Gunnar fengi ekki að gegna embætti sóknarprests á Selfossi. Séra Gunnar fór fram á að nefndin vísaði málinu frá.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að fyrir liggi að séra Gunnar hafi viðurkennt tiltekna háttsemi gagnvart tveimur stúlkum sem voru á þeim tíma þátttakendur í kirkjulegu starfi í Selfosskirkju.

Í úrskurðinum er vísað til umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar frá árinu 1999 þar sem segir að óhjákvæmilegt sé að líta svo á að siðferðisbrot og agabrot séu tvö sjálfstæð og aðgreinanleg hugtök í lögfræðilegu tilliti. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að háttsemi séra Gunnars geti ekki talist ótvírætt undir agabrot í skilningi laga um kirkjuaga.

„Sú háttsemi sem málshefjandi [sóknarnefnd Selfosskirkju] telur siðferðisbrot af hálfi gagnaðila [séra Gunnars] er þegar hann í tvígang annars vegar á árinu 2007 og hins vegar á árinu 2008, faðmaði stúlkur í kirkjulegu starfi, sem báðar voru á þeim tíma undir lögaldri, strauk annarri um bak, utan klæða, talaði um að honum liði illa og kyssti hina stúlkuna á sitt hvora kinnina."

Úrskurðarnefndin segir ljóst af af orðum séra Gunnars sé ljóst að hann hafi í öðru málinu gerst sér strax grein fyrir að hann kynni að hafa farið út fyrir viðurkennd mörk í samskiptum prests og ungmenna í kirkjulegu starfi því að hann bað stúlkuna afsökunar.

Séra Gunnar "hafi mátt gera sér grein fyrir og gerði að hluta, að háttsemi hans kynni að skapa vanlíðan og jafnvel ógn hjá ungmennunum sem fyrir háttseminni urðu, enda eru kossar og faðmlög tæpast háttsemi sem hægt er að telja eðlilega af hálfu sóknarprests gagnvart ungmennum undir lögaldri. Öðru máli kann að gegna varðandi sambærilegri háttsemi gagnvart fullveðja einstaklingum. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði hjá því komist að telja þá háttsemi sem gagnaðili syndi unglingsstúlkunum tveimur og sem hann sjálfur hefur staðfest, feli í sér ótvírætt siðferðisbrot í skilningi tilvitnaðra laga og reglna. Háttsemi af þessu tagi sé ekki hægt að útskýra með tillitsleysi, ókurteisi eða klaufaskap. Með háttseminni hafi gagnaðili þannig farið útfyrir mörk viðurkenndrar hegðunar gagnvart ungmennum í kirkjulegu starfi."

Samkvæmt lögum hafa báðir aðilar rétt á að skjóta málinu til áfrýjunarnefndar innan þriggja vikna. Málið mun síðan fara inn á borð biskups. Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu mun biskup ekki tjá sig um málið meðan áfrýjunarfrestur er ekki liðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina