Fréttaskýring: „Það eru allir að vinna að sama markinu“

Heiðar Kristjánsson

Þegar Samtök atvinnulífsins beindu þeirri ósk til stjórnar Viðskiptaráðs Íslands að hafnar yrðu viðræður um sameiningu, var það m.a. rökstutt með þeim hætti að virkja þurfi betur kraft og frumkvæði atvinnurekenda til beinnar þátttöku í endurreisn atvinnulífsins og auka skilvirkni í rekstri samtaka atvinnurekenda. Lýsti framkvæmdastjórnin þeirri von sinni að sameinuð heildarsamtök gætu orðið mjög öflugur samstarfsaðili við endurreisn íslensks atvinnulífs.

Var jafnframt óskað eftir því að þessar viðræður gætu hafist sem allra fyrst. Erindið hefur ekki verið tekið fyrir í stjórn VÍ en verður væntanlega gert fljótlega.

„Fulltrúar beggja félaga hafa hist og það er mikill vilji til að auka samstarf, því þau vinna nokkurn veginn að sömu markmiðum. Það eru engar fregnir af endanlegri niðurstöðu enda var þetta hugsað sem hluti af stærra máli og er mjög jákvætt að atvinnurekendur hafi bein afskipti af því hvernig skipulagi hagsmunagæslu er háttað,“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri VÍ. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rætt hefur verið um sameiningu þessara samtaka. Viðskiptaráð Íslands, sem bar áður nafnið Verzlunarráð Íslands, á sér rúmlega 90 ára sögu. Árið 2005 var ákveðið að breyta nafninu í Viðskiptaráð Íslands.

Þegar Samtök atvinnulífsins voru stofnuð fyrir réttum áratug með sameiningu Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins, kom einnig til umræðu hvort rétt væri að Verzlunarráð gengi í sæng með SA og samtökin yrðu sameinuð. Þá komust menn að þeirri niðurstöðu að heppilegast væri að halda þessum tveimur félögum aðskildum. Meginástæðan var sú að þar sem SA væri þátttakandi í gerð kjarasamninga og ætti í ýmsum samskiptum við stjórnvöld var litið svo á að Verzlunarráðið væri frjálsara að því að halda frammi skoðunum og áleitinni umræðu sem sjálfstæð samtök.

Mörg fyrirtæki eiga aðild að báðum samtökunum. Viðskiptaráð eru frjáls samtök félaga, fyrirtækja og einstaklinga í atvinnulífi og geta allir sem stunda rekstur átt aðild að því. Hlutverkið hefur fyrst og fremst verið að vera vettvangur atvinnulífsins til þess að vinna að framförum, bættu starfsumhverfi og aukinni velmegun og gæta hagsmuna viðskiptalífsins.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að nú finnist mörgum rétt að fara í gegnum þessa umræðu um mögulega sameiningu. „Það er fyrst og fremst mál stjórnar Viðskiptaráðs Íslands og félaga þess hvort þeir vilja koma inn í Samtök atvinnulífsins og sameinast þeim eða hvort þeir vilja halda Viðskiptaráðinu áfram sjálfstæðu. Við fundum að það var farið að tala um þetta meðal manna í atvinnulífinu og ákváðum því að ganga í málið og láta reyna á hvort grundvöllur er fyrir þessu,“ segir Vilhjálmur. „Það eru allir að vinna að sama markinu, að hér verði gott atvinnulíf, öflugt efnahagskerfi og gott samfélag. Það vill stundum gleymast að þetta eru sameiginlegt markmið,“ segir Finnur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: