„Tilraunin mistókst“ með herfilegum afleiðingum

Kristján Gunnarsson, formaður SGS.
Kristján Gunnarsson, formaður SGS. mbl.is/G.Rúnar

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að frjálshyggjutilraun síðustu tveggja áratuga hafi fengið sinn dóm. „Hún mistókst svo herfilega að íslensk þjóð verður áratugi að jafna sig á eftir,“ sagði Kristján þegar hann setti þing SGS í morgun. Hann hefur einnig ákveðið að gefa áfram kost á sér til formennsku í SGS.

Hann sagði jafnframt að nú þyrfti þjóðstjórn, en ekki þjóðstjórn stjórnmálaflokkanna. „Hið eina rétta þjóðstjórnarmynstur að mínu viti, er að ríkisstjórn á hverjum tíma vinni náið með samtökum launafólks, sveitarfélögum og samtökum atvinnurekenda að því að skapa forsendur til framfara og uppbyggingar,“ kemur á vef SGS.

Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi við að hann gefi áfram kost á sér sem formaður SGS, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar.

„Svona hvatning frá nánasta samstarfsfólki lætur engan ósnortinn. Hún – og sú staðreynd að ég teldi það ábyrgðarlaust að stíga af skútunni við þær aðstæður sem við blasa – eru helstu ástæður þess að ég hef ákveðið að gefa áfram kost á mér til formennsku í Starfsgreinasambandinu,“ segir Kristján.

Ræða Kristjáns í heild er hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert