Málin að komast á lokastig

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ræðir við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í …
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ræðir við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Jón Pétur

„Við erum að bíða eftir viðbrögðum frá Bretum og Hollendingum við síðasta útspili okkar, sem fór til þeirra fyrir helgi. Eigum von á því alveg eins í dag. Málin eru algjörlega að komast á lokastig, eða skýrast til fulls,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra spurður um Icesave-málið eftir ríkisstjórnarfund í dag.

Steingrímur segir að unnið sé að því reyna ganga frá lokasamkomulagi, sem uppfylli sem allra best fyrirvara alþingis og sé ásættanlegt fyrir báða aðila. „Þannig báðir aðilar geti borið það fram á sínum vettvangi og lokið málinu.“

Spurður um breytingar segir Steingrímur: „Það verða breytingar sem leiða af efnahagslegu fyrirvörunum sem alþingi setti. Og hvernig gengið verður frá þeim og greiðslutryggingum í samræmi við þá. Það eru lagaleg atriði sem hafa staðið í mönnum. Þættir er eins og hvernig verði háttað samskiptum aðila í framhaldinu, viðræður og annað slíkt. Og svo náttúrulega vita allir að endurskoðun okkar mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa þarna uppi á borðum líka.“

Aðspurður vonast Steingrímur að það fari að sjást til sæmilega fasts lands í þessum efnum. „Það þarf nauðsynlega að gerast á allra næstu sólarhringum.“ 

mbl.is