Býður lækkun á höfuðstól bílalána

Íslandsbanki hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum uppá leiðréttingu á höfuðstól gengistryggðra og verðtryggðra bílalána og bílasamninga.

Leiðréttingin felur í sér að höfuðstóll láns er leiðréttur miðað við ákveðið gengi í lok september 2008. Þetta hefur í för með sér, að sögn bankans, að höfuðstóll erlendra bílalána og bílasamninga mun lækka um 23% að meðaltali, miðað við gengið eins og það var 20. október s.l. Höfuðstóll verðtryggðra bílalána og bílasamninga í íslenskum krónum lækkar um 5% að meðaltali.

Við breytinguna mun lánið færast yfir í íslenskar krónur á breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Veittur verður afsláttur af vöxtum fyrstu 12 mánuði lánsins. Vextir verða því 10,5% í stað 13,1% í dag. Ef vaxtabreytingar verða á tímabilinu munu vextir breytast í samræmi við það. Eftir 12 mánuði munu vextir miðast við vaxtatöflu Íslandsbanka Fjármögnunar.

Til þess halda greiðslubyrði í lágmarki stendur viðskiptavinum Íslandsbanka til boða að lengja greiðslutíma bílalánsins, þó aldrei lengur en í þrjú ár og að hámarki 75% af þeim fjölda greiðslna sem eftir er á láninu. Hægt verður að sækja um leiðréttingu á höfuðstól bílalána og samninga fram til 15. desember næstkomandi. Viðskiptavinur munu geta sótt um á vef bankans, prentað út viðeigandi skjöl á einfaldan hátt og skilað þeim undirrituðum í næsta útibú Íslandsbanka um land allt.

Vefur Íslandsbanka

mbl.is

Bloggað um fréttina