Hinir þrjósku Íslendingar

Hattersley lávarður.
Hattersley lávarður.

Roy Hattersley, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bretlands, gleymir aldrei meðan hann lifir hve Íslendingar voru erfiðir viðfangs í landhelgisdeilunni við Breta. Hattersley, sem nú er orðinn lávarður, hefur á undanförnum misserum skrifað greinar í bresk blöð þar sem hann deilir þessari reynslu með löndunum sínum og reynir að útskýra hvers vegna Íslendingar séu jafn þrjóskir og ósveigjanlegir og raun beri vitni. 

Hattersley lávarður skrifar grein í blaðið The Times í dag undir fyrirsögninni: Má ég kynna hina þrjósku Íslendinga -  Ef forfeður þínir væru ræningjar myndir þú ekki hafa miklar áhyggjur af því að halda 3,6 milljörðum punda sem annar á.

Lávarðurinn segir, að það eigi ekki að koma neinum á óvart að Íslendingar hóti nú að greiða ekki Icesave-skuld sína við Breta. „Íslendingar eru í eðli sínu ósanngjarnir. Það er hluti af persónutöfrum þeirra og leyndarmálið á bak við tilveru þeirra. Ef stofnendur þessarar einstöku þjóðar - Norðmenn sem voru á flótta undan harðstjórn með írska og skoska þræla sína og konur sem þeir rændu á flóttanum - hefðu lagt raunsætt mat á möguleika sína hefðu þeir ekki numið land á hraunkletti rétt sunnan norðurheimskautsbaugs," segir Hattersley.

Hann bætir við að þjóðin sem nú vilji ekki endurgreiða Bretum lán sé komin í beinan karllegg af norrænum víkingum, sem farið hafi með ránshendi víða um heim. Afkomendur þeirra muni því ekki miklar áhyggjur af því að stinga 3,6 milljörðum punda, sem aðrir eiga, í eigin vasa. 

Hattersley fór fyrir sendinefnd, sem breska stjórnin sendi hingað til lands haustið 1975 til að reyna að semja um lausn þorskastríðsins. „Auðvitað töpuðum við því stríði. Íslendingarnir ákváðu einhliða að lýsa yfir eignarhaldi á alþjóðlegu hafsvæði. En það var ekki þeirra vandi, þegar þjóðarhagsmunum þeirra var ógnað, að fást mikið við lagalegar flækjur.  Íslensk varðskip sigldu bara á milli bresku togaranna og neta þeirra og skáru á togvírana," segir Hattersley.

Hann hefur áður, í grein í Guardian veturinn 2008, lýst heimsókn sinni til Íslands árið 1975 og endurtekur þá lýsingu í greininni í Times. Í stuttu máli voru þær fari ekki sléttar ef marka má frásögn Hattersleys. 

Hann viðurkennir í greininni í dag, að hann hafi hrifist af þessari undarlegu þrjósku þjóð og ákveðið að heimsækja Ísland aftur 20 árum eftir að Reykjavíkurstríðið var háð. Þá hafi komið í ljós að Íslendingar voru jafn uppteknir og áður af þjóðareinkennum sínum.

Þannig hafi gestgjafarnir minnt sig á, að íslenskir hestar væru ekki eins og aðrir hestar. Þeir hefðu fimm gangtegundir en venjulegir hestar hafi fjórar.

Frásögn Hattersleys er með nokkrum goðsagnakenndum blæ. Hann segist hafa farið til Íslands á vegum dagblaðs til að kynna sér íslenska erfðafræðirannsóknarstöð. Þar hafi verið tekið af honum blóðsýni og síðan hafi erfðaefni hans verið rannsakað.

„Þú ert með krabbameinsgenið, blóðtappagenið og Alzheimergenið," hefur Hattersley eftir forstjóra stofnunarinnar.

„Ég bætti við: Og offitugenið? Hafði móðir mín ekki sagt mér að þannig væri ég skapaður.

En forstjórinn hikaði ekki. „Nei, þú ert feitur vegna þess að þú valdir að vera feitur."

Annar aðdáunarverður eiginleiki Íslendinga er, að þeir eru ekki vanir að skafa af því," segir Hattersley lávarður.

Grein Hattersleys í The Times

Frétt um grein Hattersleys í Guardian í október 2008

Roy Hattersley kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum árið 1975.
Roy Hattersley kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum árið 1975. mbl.is/Ólafur K. Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert