Hávarr ekki á mannanafnaskrá

Mannanafnanefnd hafnaði því, að taka karlmannsnafnið Hávarr á mannanafnaskrá á þeirri forsendu, að það uppfyllti ekki skilyrði laga um mannanöfn. 

Í greinargerð nefndarinnar segir m.a. að eiginnafnið Hávar sé á mannanafnaskrá. Nafnið komi fyrir í fornum heimildum með rithættinum Hávarr en þá hafi verið gerður sá greinarmunur að nefnifall endaði á rr en þolfallið og önnur föll í orðum af þessu tagi höfðu aðeins eitt r. Þessi hljóðlega aðgreining sé löngu horfin úr íslensku máli og nútímastafsetning endurspegli hana ekki.

Vitnað er í bókina  Nöfn Íslendinga þar sem kemur fram, að nafnið virðist hafa verið sjaldgæft til forna og var ekki notað að nýju fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar. Eftir að nafnið var tekið upp á 20. öld hafi enginn Íslendingur verið skráður með rithættinum Hávarr, skv. upplýsingum frá Þjóðskrá. Rithátturinn Hávarr styðjist því ekki við hefð, þrátt fyrir að dæmi um hann megi finna í fornum íslenskum ritum.

mbl.is

Bloggað um fréttina