Lögreglan hvetur fólk til að ganga

Mikið annríki hefur verið hjá lögreglunni og björgunarsveitinni á Suðurnesjum síðasta hálfa sólarhringinn. Mikil ofankoma er enn á svæðinu og hafa borist á fimmta tug beiðna um aðstoð frá ökumönnum sem festa hafa bíla sína.

Að sögn lögreglunnar er mikið af illa búnum ökutækjum í umferðinni, en heilsársdekkin virðast t.d. ráða illa við að keyra við núverandi aðstæður þar sem mikið hálkusvell leynist undir snjónum.

Erfiðlega hefur gengið að halda aðkomunum að Sandgerði og Garði opnum vegna skafrennings, en Vegagerðin er að moka göturnar sem stendur. Lögreglan hvetur fólk til þess að skilja bíla sína eftir heima og fara frekar gangandi til vinnu enda vegalengdir í flestum tilfellum stuttar fyrir fólk til og frá vinnu á Suðurnesjum þegar fólk býr og starfar í sama bænum.

Reykjanesbrautin hefur verið vel greiðfær. Lögreglan bendir fólk að fylgjast vel með textavarpinu m.t.t. til seinkana á flugi, en nokkuð var um seinkanir í gær þar sem illa gekk að koma áhöfnum á Suðurnesjum á leið í flug út í flugstöðina vegna ófærðar.


mbl.is

Bloggað um fréttina