Bréfberi fær ekki bætur fyrir hundsbit

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag ekki á bótakröfu bréfbera vegna tjóns sem bréfberinn varð fyrir þegar hundurinn Skuggi beit hann í Kópavogi árið 2006.

Svo virðist sem bréfberinn hafi verið bitinn aftur af hundi í sama bæjarfélagi tveimur árum síðar, það er árið 2008, en ekki var dæmt vegna þess hundbits nú.  Ekki þótti sannað að hann hafi orðið fyrir varanlegum skaða af hundsbitinu í mars 2006.

Bitinn af stórum svörtum hundi í vinstri mjöðm

Samkvæmt dagbókarfærslu lögreglunnar í Kópavogi kom bréfberinn á lögreglustöðina í  mars 2006 og tilkynnti að svartur og stór hundur hefði bitið hann í vinstri mjöðm.  Í kjölfarið lagði hann fram kæru vegna hundsbitsins.

Hann kvaðst hafa unnið við dreifingu á pósti frá því í ágúst 2002 og komið með póst að téðu húsi flesta virka daga á þessu tímabili.  Hann kvaðst hafa vitað af hundi, svörtum og frekar stórum, sem tilheyrði húsinu. 

Í umrætt sinn kvaðst hann hafa gengið að húsinu og ung stúlka hafi opnað útidyrnar utan frá.  Hann kvaðst hafa rétt póstinn skáhallt inn um hurðina og hafi hann hafnað á gólfinu. Í þann mund hafi hundurinn ráðist á sig.  Hann hafi stokkið á sig og bitið fast í vinstri mjöðmina. 

Bréfberinn kvaðst hafa fundið strax fyrir miklum sársauka og einnig hafi honum brugðið mikið.  Hann hafi séð að komið hafi blóðrautt sár og einnig hafi buxur hans verið rifnar eftir hundskjaftinn. 

Hundurinn hafi lagst á bakið í grasið eftir árásina, eftir skammir frá stúlkunni. Hann kvaðst hafa farið strax af vettvangi og gengið að nærliggjandi húsi.  Þar hafi verið gert að sárum hans og það sprittað.  Hann hafi haldið áfram vinnu sinni og ekki orðið fyrir vinnutapi. 

Greinilega öflugt bit

Í læknisvottorði sem læknir á Landspítala gaf út daginn eftir segir að um sé að ræða tvö fleiðursár á vinstri mjöðm.  Ekki sé að sjá að þau séu djúp en svolítið mar þar í kring og greinilega hafi verið um öflugt bit að ræða.  Þar sem maðurinn hafði verið bitinn af heimilishundi var ekki talið nauðsynlegt að gefa honum stífkrampasprautu.

Eigendur Skugga lýstu atvikinu á þann veg að  dóttir þeirra var að koma heim úr skólanum og stóð við útidyrnar við það að opna þær með lykli þegar póstmanninn bar að.  Þar sem hann er hinn vinsamlegasti maður tóku þau að spjalla stuttlega saman eins og svo oft áður.  Meðan á þessu stendur opnar dóttir þeirra útidyrnar og er þá hundurinn þar fyrir innan dyrnar og vill komast út.  Hún segir honum að vera kyrrum fyrir inni og hlýðir hann því eins og alltaf.  Því næst ákveður póstmaðurinn að skutla póstinum á gólfið rétt inn fyrir dyrnar við fæturna á hundinum.  Hundurinn tekur þessu sem að póstmaðurinn sé að „ráðast“ inn á heimilið og stekkur á póstmanninn og bítur hann rétt fyrir utan útidyrnar, samkvæmt lýsingu hundeigendanna.

Leituðu til sérfræðings í hundaatferlisfræðum

Að sögn sérfræðings í hundaatferlis­fræðum er verndarárásargirni og heimasvæðis­árásar­girni ein algengustu vandamál sem hundaeigendur glíma við. 

„Þetta vandamál með samskipti hunds og pósts eru alltaf erfið og eru mjög algeng.  Það sem þarf að gera í þessu tilfelli er að „leysa“ Skugga undan þeirri ábyrgð að gæta hússins og eigenda. 

Takmarka aðgang hans í húsinu á meðan hann er einn heima, varna því að hann komist að útidyrahurðinni með millihurð eða hliði.  Einnig er hægt að setja upp póstkassa við lóðamörk þannig að enginn þurfi að koma að húsinu sem ekki á erindi þangað við heimilisfólkið. 

Eins og áður er sagt þá er líklegt að þetta geti átt sér stað aftur að öllu óbreyttu og við sömu kringumstæður.  Það er nauðsynlegt að taka Skugga kerfisbundið í þjálfun sem vinnur að því að minnka viljann hjá honum til að verja sitt umhverfi og sína nánustu og fær frekar hundinn til að líta til eigendanna eftir öryggi og ábendingum um viðeigandi hegðun, einnig að breyta umhverfinu á heimilinu þannig að aðgangur hans að hurðinni sé ekki með sama móti og hann er í dag, jafnvel að takmarka aðgang hans að stofuglugga, „varðturninum“.  Ef þessum atriðum yrði fylgt eftir þá eru batahorfur góðar, að því er segir í skýrslu sérfræðings í hundaatferlis­fræðum í kjölfar hundsbitsins.

Tryggingafélagið sagði ekki ég....

Tryggingafélag eigenda Skugga,  Vátrygginga­félag Íslands, hafnaði bótaskyldu í málinu þar sem ekki yrði séð að tjón hans mætti rekja til skaðabótaskyldrar háttsemi eigenda hundsins Skugga.

Lögmaður bréfberans fór með málið fyrir  úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og komst hún að sömu niðurstöðu og tjónanefndin, að bréfberinn fengi ekki skaðabætur greiddar frá VÍS.

 Í júní 2008, rúmum tveimur árum eftir hundsbitið mætti bréfberinn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuð­borgarsvæðinu til frekari upplýsingagjafar.  Hann kvað hundinn, sem beit hann, hafa mjög oft verið lausan og oft vaðið að sér með ógnandi hætti.  Þá vildi hann að fram kæmi að hundurinn hefði verið óbundinn.  

Lagði bréfberinn fram örorkumat frá árinu 2007 sem unnið var um varanlegum miska og tímabundinni örorku bréfberans sem hann hafi orðið fyrir við hundsbitið.  Niðurstaða matsins er sú að bréfberinn hafi hlotið 5% varanlegan miska en enga tímabundna örorku.

Varð fyrir vægri andlegri truflun og varanleg örorka metin 2%

Segir í héraðsdómi að bréfberinn varð fyrir því  þann 10. júní 2008 að hundur réðst að honum og beit hann er hann var að bréfberastörfum sínum í Kópavogi og liggja frammi í málinu sérfræðimat vegna þess hundsbits. Meginniðurstaða þess er að bréfberinn sýni ekki áfallastreitu­einkenni þrátt fyrir að sýna kvíða og þunglyndi.  Meginniðurstaða matsgerðar læknisins er þessi:  „Samkvæmt framansögðu hefur slasaði ekki orðið fyrir líkamlegri sköddun af völdum slyssins en hefur aftur á móti orðið fyrir mjög vægri andlegri truflun.  Varanleg örorka er metin 2%.“

Taldi dómari í málinu því ljóst að ekki verði sýnt fram á það að bréfberinn hafi orðið fyrir tjóni sem eigendur hundsins né VÍS beri ábyrgð á. Málskostnaður var felldur niður fyrir héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert