Sprungurnar líklega nátengdar

Myndin var tekin úr þyrlu rétt um það bil sem ...
Myndin var tekin úr þyrlu rétt um það bil sem nýja sprungan var að opnast á Fimmvörðuhálsi í kvöld. mbl.is/Jón Kjartan

Nýja gossprungan virðist vera nátengd þeirri sem opnaðist 20. mars s.l. að mati Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann bendir á að lítil breyting hafi orðið á skjálftavirkni þegar nýja sprungan opnaðist og gosórói er nánast óbreyttur þrátt fyrir nýju sprunguna.

Páll kvaðst ekki hafa trú á að hraunflæði hafi aukist í heildina þrátt fyrir opnun nýju sprungunnar. Hann markar það af óróanum og segir hann yfirleitt hafa reynst góðan mælikvarða á hvað mikið hraun flæðir. Páll sagði það raunar eiga eftir að koma í ljós hvaða áhrif nýja sprungan hefur á hraunflæðið.

„Þetta sýnir það að svona gossprungukerfi getur verið óstöðugt,“ sagði Páll. „Það er lexía út af fyrir sig að það er ekki hægt að ganga að þessu vísu þótt menn séu búnir að fylgjast með gosinu í marga daga og allt hafi virst vera í stöðugu ástandi þá getur það breyst snögglega.“

Samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur ferðamönnum við gosstöðvarnar verið snúið aftur til Skóga og niður í Þórsmörk  og einnig  hefur farartækjum á Mýrdalsjökli verið snúið til baka.

Byggð umhverfis Eyjafjallajökul er ekki talan stafa hætta af nýrri gossprungu á Fimmvörðuhálsi.   Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor, hefur verið í sambandi við Samhæfingarstöð og telur eins og Páll Einarsson, að um sé að ræða sprungu frá sömu gosrás.  

mbl.is