Umhverfisvænna að þurrfrysta lík

Svíjar eru að þróa nýja aðferð við greftranir.
Svíjar eru að þróa nýja aðferð við greftranir. mbl.is/Sverrir

Í nokkrum löndum er farið að nota nýja aðferð, þurrfrystingu, við greftrun í þeim tilgangi að draga úr umhverfismengun við útfarir. Eygló Harðardóttir alþingismaður spurði dómsmálaráðherra hvort skoðaður hefði verið sá möguleikinn að leyfa þurrfrystinguhér á landi.

Í svari ráðherra segir að dómsmálaráðuneytinu sé kunnugt um og hafi fylgst með þessari vistvænu aðferð, en sænskur líffræðingur og verkfræðingur, Susanne Wiigh-Mäsak að nafni, kynnti hana árið 2001 og fékk einkaleyfi fyrir henni í Svíþjóð fyrir nokkrum árum.

Aðferðin er þannig að lík er fryst niður í -18°C. Síðan er kistunni með líkinu sökkt í fljótandi köfnunarefni. Við þetta verður líkaminn frauðkenndur og síðan er kistan sett á bretti og hrist til. Við hristinginn verður líkið nánast að dufti. Með því að setja duftið í segulsvið er svo unnt að skilja kvikasilfur og aðra málma frá. Þá eru eftir 5–30 kg af dufti sem loks er sett í umhverfisvæna kistu sem búin er til úr maíssterkju eða kartöflusterkju og hún síðan jarðsett. Kistan og askan aðlagast síðan jarðveginum á 6–12 mánuðum. Með því að gróðursetja tré á leiðið mun það soga í sig næringarefnin sem losna úr læðingi.

„Þessi aðferð hefur ekki fengið almenna útbreiðslu en tilraunir standa enn yfir í Svíþjóð og víðar, m.a. í Kanada,“ segir í lokin á svari ráðherra.

Líkbrennslum hefur fjölgað á Íslandi hin seinni ár. Í svari ráðherra kemur fram að nokkur mengun fylgi þessari brennslu. Í skýrslu sem var unnin árið 2007 kemur fram að um 2,5 kg af kvikasilfri sleppi út í andrúmsloftið vegna líkbrennslu hér á landi. Ástæðan er fyllingar í tönnum. Því er spáð að þessi mengun eigi eftir að aukast á næstu árum og verði komin yfir 10 kg árið 2035, en fari þá minnkandi vegna þess að það dragi úr amalgamfyllingu í tönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert