Býður Björk hlut í Magma

Björk Guðmundsdóttir á blaðamannafundi í gær.
Björk Guðmundsdóttir á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Ross Beaty, forstjóri kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy, segist vilja bjóða Björk Guðmundsóttur 25% hlut í HS Orku til kaups. Þetta kemur fram á vef blaðsins Reykjavik Grapevine. Björk segist ekki hafa áhuga á hlutabréfum enda eigi að gefa þjóðinni þetta fyrirtæki aftur.

Á vef blaðsins er haft eftir Beaty, að hann vilji koma með lúmskt tilboð til Bjarkar: að hún fjárfesti í HS Orku. Segist hann bjóða henni til kaups 25% hlut á sama verði og hann keypti hlutabréfin á. Það séu sömu kjör og lífeyrissjóðum bjóðist.

Björk svarar og segist hafa séð orðsendingu Beatys og segir hann algerlega hafa misskilið boðskapinn, sem hún og félagar hans hafi viljað koma á framfæri. „Ég tel að það eigi ekki að einkavæða þetta fyrirtæki heldur eigi að færa það þjóðinni aftur," segir hún. „En ef fengi sama samning og þú, 70% kúlulán frá Íslendingum til að kaupa nýtingarrétt á auðlindum þeirra, kynni ég að hugsa málið."  

Vefur Grapevine

mbl.is