Gylfi: Vonandi varanleg áhrif

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins. mbl.is/Eggert

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir, aðspurður um lækkun á vísitölu neysluverðs, að áhrif sumarútsalanna séu meiri en menn hafi áður séð. Þá vonar hann að einnig sé um að ræða varanleg áhrif sem rekja megi til styrkingu krónunnar. Mikilvægt sé að árangur í stjórn efnahagsmála skili sér til neytenda.

„Við treystum því að fyrirtækin skili því svigrúmi sem er til verðlækkana til neytenda, ef það verður til,“ segir Gylfi, spurður hvort hann telji að þetta muni koma til að þróast áfram með þessum hætti.

Spurður um stöðu krónunnar segir Gylfi: „Það er ljóst að krónan er ennþá, í sögulegu samhengi, veikari en hún þarf að vera.“ 

Þá segir hann að vantrú fjármálamarkaðarins á krónuna sé með þeim hætti að hún verði seint sterk á fjármálamarkaði.

Það sé mikilvægt að stjórnvöld haldi vel utan um stjórn peningamála í landinu.

„Við vorum að hefja formlegar viðræður í gær við Evrópusambandið. Það er engin launung á því að Alþýðusambandið hefur lagt áherslu á að það sé mikilvægt að fara í þessar viðræður og kanna það hvaða kosti við stöndum frammi fyrir. En traustari gjaldmiðill er að okkar mati algjör forsenda þess að koma okkur út úr þessum ógöngum. Þannig að fólk fái notið hér bæði lægri og sambærilegri vaxta og verðlags við það sem er í nágrannalöndum,“ segir Gylfi.


mbl.is

Bloggað um fréttina