Hefur beðið ráðherra afsökunar

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segist hafa rætt við Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmann hennar, um óheppilegan tölvupóst sem komst í fréttir í vikunni. Hafi Elías Jón beðist afsökunar  og hann hafi einnig beðist opinberlega afsökunar á málinu í Ríkisútvarpinu í gær.

Í skriflegu svari við spurningu Morgunblaðsins um hvort það teljist eðlilegt að aðstoðarmaður menntamálaráðherra, taki að sér að sjá fjölmiðlum fyrir upplýsingum um svonefnt Magma-mál, segir Katrín, að það sé vel þekkt að aðstoðarmenn ráðherra vinni saman þvert á ráðuneyti og ráðherra enda fundi þeir allir reglulega og vinna saman að málum.

„Ég tók ekki þátt í þeirri ráðherranefnd sem fjallaði um málið og því er þetta ekki hluti af verkefnum míns ráðuneytis sérstaklega. Hins vegar var Elías áður starfandi í fjármálaráðuneyti, vel fram á þetta ár, og hann hefur tjáð mér að í þessu tilfelli hafi blaðamaður haft samband við sig og hann ætlað sér í framhaldinu að hafa samband við aðstoðarmann fjármálaráðherra," segir Katrín í svarinu.

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, segir við Morgunblaðið í dag, að hlutverk hvers ráðuneytis sé mjög skýrt og það sé mjög vandað ákvæði um samstarf og samþættingu verkefna í lögum um Stjórnarráð Íslands. Því sé mjög óeðlilegt, eins og skipulag stjórnarráðsins sé, að menn blandi sér í málefnasvið hvers annars.

Katrín var spurð hvernig standi á því að aðstoðarmaður hennar,  sem beri við að vera í fæðingarorlofi, sinni umræddum verkefnum og það í gegnum netfang menntamálaráðuneytis.  Hún segist geta staðfest, að Elías Jón hafi verið í fæðingarorlofi frá störfum sínum í tvo mánuði og verði sjálfur að svara hvernig hann verji því. Skýra þurfi hins vegar reglur um notkun netfanga í ráðuneytum og gera grein fyrir þeim þar sem iðulega fylgi líka undirskrift með titli ráðuneytisins - eðlilegast sé að nota slík netföng eingöngu tengd því starfi.

mbl.is