Varað við ferðum í Þórsmörk

Markarfljótið rennur nú yfir veginn inn í Þórsmörk
Markarfljótið rennur nú yfir veginn inn í Þórsmörk Ljósmynd Jón Ragnar

Varnargarður við Markarfljót á Þórsmerkurleiðinni brast í morgun og er ekki ráðlegt fyrir aðra en þá sem eru á sérútbúnum fjallabílum að fara inn í Þórsmörk. Ragnheiður Hauksdóttir, landvörður í Húsadal, segir Markarfljótið renna yfir veginn á löngum kafla og varar fólk við að keyra þessa leið.

Ragnheiður segist hafa keyrt þessa leið skömmu fyrir hádegi og þá hafi varnargarðurinn verið í sundur á einum stað og hluti Markarfljótsins runnið yfir veginn. Er þetta áður en komið er að lóninu, um miðja vegu á leiðinni í Þórsmörk. 

Hún segir að talsvert af ösku berist í árnar úr jöklinum og askan verði að leðju. Það sé skýringin á flóðinu nú. Meðal annars hafi verið erfitt að átta sig á Krossá í sumar þar sem áin var sífellt að breyta sér vegna leðjunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli þá höfðu bílstjórar langferðabíla sambandi við lögreglu í morgun þar sem áin flýtur yfir veginn á löngum kafla. Telja bílstjórarnir að leiðin sé bæði hættuleg og illfær. Lögreglan er nú á leið inn í Þórsmörk þar sem aðstæður verða kannaðar.

Þórsmörk
Þórsmörk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert