Íslendingar gengu ekki út

Íslendingar voru ekki meðal þeirra, sem gengu út undir ræðu Mahmouds Ahmadinejads, forseta Írans, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Þar sagði Íransforseti, að margir aðhylltust þá kenningu, að öfl innan bandarísku ríkisstjórnarinnar hefðu lagt á ráðin um hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin árið 2001. 

„Meirihluti bandarísku þjóðarinnar og aðrar þjóðir og stjórnmálamenn taka undir þetta," sagði Ahmadinejad.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, eru í New York í tengslum við allsherjarþingið. Hvorugt þeirra var í salnum þegar Ahmadinejad flutti ræðu sína, samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni utanríkisráðherra. Íslenskir sendimenn voru hins vegar í salnum.

Tveir bandarískir embættismenn, sem fylgdust með ræðu Íransforseta, stóðu upp og gengu út. Á hæla þeim gengu Bretar og síðan fulltrúar fleiri Evrópuríkja. Fulltrúar Norðmanna sátu hins vegar áfram, samkvæmt upplýsingum mbl.is og fulltrúar fleiri ríkja, þar á meðal Íslendinga eins og áður sagði.

Ahmadinejad hefur oft vakið hneykslun með ræðum sínum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á ráðstefnu SÞ um kynþáttahatur snemma á síðasta ári gengu fulltrúar margra Evrópuríkja meðal annars út undir ræðu Ahmadinejad þegar hann sagði, að mynduð hefði verið ríkisstjórn kynþáttahaturs í Miðausturlöndum og vísaði þá til nýmyndaðrar ríkisstjórnar í Ísrael. Íslendingar og Norðmenn voru heldur ekki meðal þeirra sem gengu út þá.  

Bandaríska sendinefndin á allsherjarþingi SÞ í New York sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem sagði, að í stað þess að túlka vonir og velvilja írönsku þjóðarinnar hefði Ahmadinejad enn á ný sett fram ógeðfelldar samsæriskenningar og gyðingahatur sem væru andstyggilegir en jafnframt fyrirsjáanlegir hugarórar. 

Jóhanna Sigurðardóttir flutti ræðu í New York í gær á leiðtogaráðstefnu um þúsaldarmarkmið SÞ. Össur Skarphéðinsson mun flytja ræðu á allsherjarþinginu annað kvöld. 

Ahmadinejad með eintök af Kóraninum og Biblíunni í ræðustól SÞ …
Ahmadinejad með eintök af Kóraninum og Biblíunni í ræðustól SÞ í kvöld. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert