Þorgerður Katrín: Pólitísk réttarhöld

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra flokksins og varaformaður, segir að pólitísk réttarhöld hafi verið knúin í gegnum þingið í gær. Ekki sé með nokkru móti sýnt fram á að saknæmisskilyrði séu uppfyllt eða að orsakasamhengi sé til staðar svo hægt sé að efna til ákæru.

Þetta kemur fram í pistli sem Þorgerður Katrín skrifar á Pressuna.

„Stundum er hollt að rifja upp hvers vegna maður fór að hafa afskipti á pólitík. Í mínu tilviki var það ekki síst vegna þess að ég vildi standa vörð um þjóðfélag og stjórnkerfi er byggðist á gildum á borð við lýðræði og réttlæti. Á þessum árum var það ekki sjálfgefið í okkar heimshluta þótt það sé það í dag.

Þá voru fréttir af pólítískum réttarhöldum og ákærum í löndum Austur-Evrópu daglegt brauð. Það var viðurkennd aðferð í kommúnistaríkjunum að kála pólítískum óvinum með því að draga þá fyrir dómstóla. Aldrei átti ég hins vegar von á því að Alþingi Íslendinga myndi falla í þá gryfju að misbeita ákæruvaldi sínu til að gera upp gamlar pólitískar sakir.

Mín fyrsta tilfinning í kjölfar þessa pólítíska voðaverks var reiði en nú er depurð að ná yfirhöndinni. Með þessum gjörningi er verið að grafa undan okkar stjórnskipulagi og feta út á mjög varasama braut.  Þær venjur og þær hefðir sem við höfum starfað eftir eru að engu hafðar. Viðkvæðið virðist vera: Látum þá finna fyrir því, vegna þess að við getum það.

Auðvitað verður ekki hjá því litið að á umliðnum árum hafa verið gerð ýmis pólitísk mistök; mistök sem m.a. Sjálfstæðisflokkurinn ber mikla ábyrgð á. Hef ég áður farið yfir það hér á Pressunni. Þau pólitísku mistök réttlæta hins vegar á engan hátt þau pólitísku réttarhöld sem knúin voru skipulega í gegnum þingið í gær.

Um það snýst nefnilega málið: Pólitísk réttarhöld.

Það er mitt mat eftir að hafa hlustað á umræður um landsdómsákærurnar í þinginu á síðustu dögum að ekki hafi með nokkru móti verið sýnt fram á að saknæmisskilyrði séu uppfyllt eða að orsakasamhengi sé til staðar svo hægt sé að efna til ákæru. Svo ég tali nú ekki um þá málsmeðferð sem viðhöfð var en hún var ekki til sóma fyrir nokkurt land sem telur sig í hópi réttarríkja. Því hlýt ég að spyrja af hverju þessi vegferð er farin þegar augljóst er að ákærurnar stóðust ekki þær kröfur sem alla jafna eru gerðar til ákæruskjala?

Nærtækasta svarið er auðvitað að fórna þurfti Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra til að halda vinstri stjórninni saman. Það sáu allir sem fylgdust með innan veggja Alþingis að fingurinn hjá sumum í Vg var á lofti síðustu daga; ógnandi ef ekki yrði ákært. Þeir þyrftu jú að fá eitthvað kjöt á beinin ellegar væri stjórnin í hættu. Dagurinn sjálfur þegar kom að atkvæðagreiðslunum varð síðan að algerum skrípaleik. Hvað sem hver segir og sagði í dag á Alþingi þá er málið stórpólitískt. Menn skulu ekki reyna að setja málið allt í misheppnaðan dularbúning ímyndaðs réttlætis. Ef menn vilja róa almenning þá verður það ekki gert með því að traðka réttlætinu.

Það þarf heldur ekki að koma á óvart og er verulegt umhugsunarefni að í valdatíð fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórnarinnar eru pólitísk réttarhöld sett á laggirnar. Þótt það komi svo sem ekki á óvart í ljósi fortíðar sumra þeirra einstaklinga sem í ríkisstjórninni sitja og styðja þá er þetta umhugsunarefni engu að síður um það samfélag sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja byggja upp.

Það er líka kaldhæðnislegt að á tímum ríkisstjórnar sem vill kenna sig við mannréttindi og hefur reyndar dubbað einn ráðherrann upp sem slíkan þá er endurkoma hins miskunnarlausa Þorleifs Kortssonar sýslumanns Strandamanna á 17. öld og kollega hans Eggerts Björnssonar auðvelduð til muna. Með stuðningi nokkurra Framsóknarmanna að auki.

Það dapurlega er að þeir voru sorglega margir Kortssynirnir í sölum Alþingis í gær, þessari elstu löggjafarsamkomu heims. Gegn slíku ofstæki verður ávallt að berjast."

mbl.is

Bloggað um fréttina