Mátti miðla upplýsingum úr augnskanna

Augnskanni
Augnskanni Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Persónuvernd hefur úrskurðað að World Class hafi verið heimilt að miðla upplýsingum til manns sem varð fyrir tjóni á bílastæði við líkamsræktarstöðina. Um var að ræða upplýsingar um að tiltekinn annar maður hafði verið í líkamsræktarstöðinni á þeim tíma sem atvikið átti sér stað. Upplýsingarnar voru sóttar í augnskanna. Talið var að miðlunin hafi verið nauðsynleg til að sá sem fékk upplýsingarnar gæti gætt lögmætra hagsmuna sinna.

Maðurinn sem olli tjóninu leitaði til Persónuverndar og taldi það ekki samræmast lögum að World Class miðlaði upplýsingum til þriðja aðila með þessum hætti. Hann benti á að sá sem varð fyrir tjóninu hefði haft allar upplýsingar um tjónvald, þar á meðal bílnúmer, nafn og kennitölu bíleiganda. Málið hafi verið í höndum lögreglu og það hafi verið hennar að rannsaka málið en ekki þess sem varð fyrir tjóninu.

Líkamsræktarstöðin sagði í bréfi til Persónuverndar að koma á líkamsræktarstöð falli ekki undir viðkvæmar persónuupplýsingar og því sé heimilt að afhenda þriðja aðila þessar upplýsingar.

Í niðurstöðum Persónuverndar segir að umrædd miðlun upplýsinga úr augnskanna hafi ekki verið til þess fallin að „ógna grundvallarréttindum eða frelsi hans“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert