Eva Joly: Ísland á að ganga í ESB

Eva Joly.
Eva Joly. mbl.is/Ernir

Eva Joly, fyrrverandi ráðgjafi sérstaks saksóknara, segir að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Það yrðu mikil verðmæti í því fólgin fyrir ESB að Ísland myndi ganga í sambandið, m.a. vegna mikillar lýðræðishefðar, náttúrauðlinda og sérfræðiþekkingu, sem Íslendingar búi yfir.

„Þið eruð hluti af Evrópu og þið innleiðið nú þegar allt evrópska regluverkið, en án þess þó að hafa áhrif á það,“ sagði Joly í samtali við Egil Helgason í þættinum Silfri Egils í dag.

Hún bendir á að ESB bjóði upp á sérstakt aðlögunarferli fyrir smáríki eins og Ísland. „Þið getið orðið hluti af Evrópu og haft áhrif á stjórnmál. Þið getið gengið í sambandið ásamt öllum hinum Norðurlöndunum. En ég vona, að ef þið gangið í sambandið þá muni Noregur fylgja á eftir,“ segir Joly.

Hún segir aðspurð að það sé goðsögn að ESB vilji komast yfir íslenskar náttúruauðlindir. „Sannleikurinn er sá að þið getið samið um þessi mál. Þar sem þið búið ekki við nágrannaríki þá held ég að þið getið náð mjög góðu samkomulagi varðandi fiskveiðar,“ segir hún.

Þá vísar hún því á bug að Ísland muni ekki geta látið í sér heyra og vera áhrifalaust á meðal evrópskra stórþjóða. 

Hefur trú á embætti sérstaks saksóknara

Hún segir embætti sérstaks saksóknara vera á réttri leið. Þar starfi nú 60 manns og starfsmennirnir verði orðnir 90 í lok ársins. Aðspurð segist hún hafa trú á embættinu.

Ljóst sé að mikil vinna sé framundan, en hún segir að embættið muni halda áfram samstarfi við yfirvöld í Lúxemborg, Bretlandi og á hinum Norðurlöndunum. Þá segist hún vera reiðubúin að aðstoða embættið eins og hægt sé, það sé ávallt hægt að ná í sig.

„Það sem þið hafið gert á Íslandi er einstakt. Svona rannsókn fer hvergi fram annarsstaðar. Ég tel að vandinn sé nákvæmlega sá sami í Bretlandi og eða í Bandaríkjunum og í Þýskalandi. En þar er ekki verið að rannsaka bankanna. Þeir eru ekki á eftir þeim sem eru ábyrgir. Fólk kemst á undan með illa fengið fé,“ segir hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina