Hlaup hafið úr Grímsvötnum

Vatnamælingamenn mæla rennsli í Skeiðará í hlaupinu 2004.
Vatnamælingamenn mæla rennsli í Skeiðará í hlaupinu 2004. mbl.is/RAX

Hlaup er hafið í Gígjukvísl, en vatnið kemur úr Grímsvötnum. Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður og sérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að 4-5 daga geti tekið fyrir hlaupið að ná hámarki.

„Ég held að það sé hægt að slá því föstu að hlaup sé hafið í Gígju. Það er frekar kalt í veðri og rennsli minnkar í öðrum ám en eykst í Gígju. Vatnshæðin hefur hækkað um 30 cm í dag og leiðni hefur aukist,“ sagði Gunnar.

Árfarvegur Skeiðarár er þurr og ekki er einu sinni víst að neitt vatn komi niður ána þó að hlaup komi úr Grímsvötnum. Ástæðan er sú að miklar breytingar hafa orðið við jökulsporðinn. Jökullinn hefur hopað og því rennur allt vatn sem kemur undan jöklinum vestur með honum og í Gígju. Gunnar sagði ekki vitað hvernig hlaupið kæmi til með að þróast. Hugsanlega færi allt hlaupið í Gígju. Ef það gerðist væri það fyrsta hlaupið úr Grímsvötnum sem hagaði sér þannig.

Í mælingu í dag reyndist rennslið í Gígju vera 130 rúmmetrar á sekúndu. Gunnar sagði að leiðni í ánni væri um tvöfalt meiri en í venjulegri jökulá. Það væri ekki mjög mikið miðað við hlaup, en hann sagðist eiga von á að leiðnin ætti eftir að aukast.

Vatnamælingamenn munu fylgjast með hlaupinu á morgun og næstu daga. Vel er einnig fylgst með jarðhræringum í Grímsvötnum. Ekki er útilokað að þar fari að gjósa í tengslum við hlaupið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka