Evran enn þá góður kostur

Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þrátt fyrir vandræðin á evrusvæðinu er evran enn þá „góður kostur“ fyrir íslenskt hagkerfi, að mati Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Már ræddi gjaldeyrismál í samtali við breska útvarpið, BBC, og sagði þar að ljóst væri að evran væri engin „töfralausn“ í efnahagsmálum.

Vðtalið við Má kemur í kjölfar þeirra ummæla Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í samtali við Reuters-fréttastofan í Abu Dhabi í gær að kostir evruupptöku séu ekki eins skýrir og áður.

Haft er eftir Má á vef BBC að vandræðin á evrusvæðinu stafi ekki af sameiginlegum gjaldmiðli evruríkjanna 16 heldur fremur af mistökum í eftirliti með fjármálamörkuðum.

„Það er engin töfralausn þegar fyrirkomulag gjaldeyrismála er annars vegar. Það er alltaf hægt að koma sér í vandræði ef maður reynir nógu mikið.“

Að mati Más stafar vandinn á evrusvæðinu af því að bankar eru „ekki nægjanlega fjármagnaðir [...] og því að eftirlit og framfylgt þess var ekki með nógu ströngum hætti“.

Á vef BBC segir að talin séu sterk rök fyrir Evrópusambandsaðild Íslands enda séu viðskiptaleg og efnahagsleg tengsl landsins við sambandið sterk.

Á það sé hins vegar bent að þótt evran kunni að hafa jákvæðar afleiðingar í för með sér óttist margir Íslendingar að aðild að sambandinu muni koma niður á sjávarútvegi og hvalveiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert