Rúmlega 10 þúsund búin að kjósa

Langar biðraðir mynduðust í Laugardalshöll í gærkvöldi þar sem fram …
Langar biðraðir mynduðust í Laugardalshöll í gærkvöldi þar sem fram fór kosning utankjörfundar vegna stjórnlagaþings. mbl.is/Golli

10.109 greiddu atkvæði utan kjörfundar í kosningu til stjórnlagaþings, en kosningu lauk á hádegi í dag. Heldur fleiri kusu utankjörfundar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin, en þá var opið lengur og m.a. var hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar á kjördag. Það er ekki hægt að þessu sinni.

Tæplega 700 manns kusu utan kjörfundar í Laugardalshöll í dag og mynduðust langar biðraðir. Fólk þurfti að bíða í um klukkustund eftir að fá að kjósa. Í Reykjavík kusu samtals 7.115 utankjörfundar, en 8.571 kaus í þjóðaratkvæðagreiðslunni. 449 aðsend atkvæði bárust kjörstjórn, en þau eru frá útlöndum eða frá öðrum sýslumannsembættum.

Kosning til stjórnlagaþings hefst á morgun og opna kjörstaðir í stærri sveitarfélögum kl. 9.

 Nánari upplýsingar um kjörstaði er að finna á kosning.is

mbl.is