Jón Gnarr kom fram í Infoman

Jón Gnarr borgarstjóri með rautt nef
Jón Gnarr borgarstjóri með rautt nef

Jón Gnarr, borgarstjóri, kom fram í kanadískum gamanfréttatíma, Infoman, sem sendur var út í kanadíska ríkissjónvarpinu Société Radio-Canada á gamlársdag. Borgarstjórinn var m.a. spurður um hvernig ætti að bera fram nafn Eyjafjallajökuls.

Jean-René Dufort, umsjónarmaður Infoman, heimsótti Ísland vegna þáttagerðarinnar og ræddi m.a. við Jón Gnarr borgarstjóra í Reykjavík. Meðal annars var rætt um framburð nafns Eyjafjallajökuls og sagði borgarstjórinn kanadískum áhorfendum að hvert orð í íslensku væri flókið.

Stjórnandi þáttarins reyndi sig líka við ýmsa aðra tungubrjóta svo sem nöfn gatna í Reykjavík og merkingar við Landspítalann.

Þáttargerðarmennirnir heimsóttu einnig Hið íslenska reðursafn á Húsavík og færðu því myndskeið úr kanadísku sjónvarpi sem þótti við hæfi að vista á reðursafninu. Þátturinn fjallar um eldun á reðri. Áhorfendur Infoman á gamlárskvöld voru um 1-1,5 milljónir talsins.

mbl.is