Mikil tækifæri

Stærstu tækifærin í ferðaþjónustu eru á tímabilinu frá september til …
Stærstu tækifærin í ferðaþjónustu eru á tímabilinu frá september til maí, að sögn framkvæmdastjóra Icelandair. mbl.is/Rax

Ef lagðar yrðu 700 milljónir í átak til að fjölga ferðamönnum til Íslands yfir vetrartímann, sama fjárhæð og fór í Inspired by Iceland-átakið, væri hægt að fjölga þeim um 50.000 næsta vetur. Það myndi skapa atvinnu fyrir 1.000  manns og auka gjaldeyristekjur um 10-15 milljarða. Þetta segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.  

Birkir Hólm ræddi um tækifærin í ferðaþjónustu á fundi Samtaka atvinnulífsins um stöðu atvinnumála í dag. Hann sagði langstærstu tækifærin í íslenskri ferðaþjónustu til framtíðar vera á tímabilinu frá september til maí.

Hann benti á ýmsar aðgerðir sem gætu greitt fyrir þessu átaki. Tekjur Keflavíkurflugvallar skv. gjaldskrá væru 1,7 milljarðar á ári. „Ég hugsa að þar af komi 1,4 milljarðar á tímabilinu apríl til október, þannig að ef yfirvöld ákveða t.d. að fella niður farþegaskatta yfir veturinn, þá myndum við geta aukið verulega ferðamannastraum til landsins,“ sagði hann.

Fram kom í máli hans að í dag kæmu fleiri ferðamenn til Finnlands yfir vetrartímann en sumartímann. þarna væru mikil tækifæri til staðar en menn yrðu að gæta sín varðandi skattlagningu á greinina.

„Það er alveg klárt að þegar álögur eru lagðar á ferðamenn eða fyrirtæki í þessari grein þá hefur það áhrif á verð og eftirspurn. Verðteygnin, sérstaklega á markaðinum til Íslands, er nánast prósenta á móti prósentu. Ef verð hækkar um 10% þá fækkar ferðamönnum um sama hlutfall. Það þarf því að fara mjög varlega í allt slíkt,“ sagði Birkir Hólm. 

Eins og fram hefur komið stefnir Icelandair að því að auka áætlunarflug félagsins um 17% á þessu ári. „Við erum með 14 vélar, sem er það mesta í sögu félagsins. Þetta þýðir að við erum að taka inn 200 nýja starfsmenn og á síðustu tveimur  árum höfum við fjölgað um um það bil 200 starfsmenn í heilsársstörfum.

Þetta þýðir að við erum með 183 ferðir á viku til 31 áfangastaðar á næsta ári og tæplega 1,8 milljónir farþega,“ sagði Birkir Hólm. Nefndi hann sem dæmi að í júní næsta sumar yrði félagið með 68 til 70 flug frá Keflavík til Norður Ameríku.

mbl.is