Sýknuð af ákæru fyrir brot gegn Alþingi

Mikill fjöldi fólks var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Mikill fjöldi fólks var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði nímenningana svonefndu af ákæru fyrir brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess með því að fara inn í Alþingishúsið og upp á þingpallana þar.

Brot gegn því ákvæði hegningarlaganna varðar allt að ævilöngu fangelsi ef það er mjög alvarlegt.

Í dómnum segir, að fólkið hafi hist hjá Iðnó við Tjörnina og lagt þar á ráðin um það að fara inn í Alþingishúsið og upp á þingpallana til þess að mótmæla ástandi í efnahags- og stjórnmálum landsins, krefjast afsagnar ráðherra og aðgerða til úrbóta. 

Til fundarins og mótmælanna var boðað með dreifimiðum á Austurvelli laugardaginn áður á almennum mótmælafundi sem þar var haldinn. 

Héraðsdómur segir, að ekki hafi komið fram nein vísbending um það í málinu að það hafi beinlínis vakað fyrir fólkinu að taka almennt ráð af þinginu eða að kúga það í einstöku máli.  

„Ákærðu, sem voru óvopnuð, fóru í hópi 20–30 manna inn í Alþingishúsið og var förinni heitið á þingpallana (eins og beinlínis er tekið fram í ákærunni) en ekki inn í þingrýmið.  Sem fyrr segir er engin vísbending í málinu um það að ákærðu hafi ætlað sér að aðhafast annað en að láta heyra í sér mótmæli vegna ástandsins í landinu frá þingpöllunum.  Verður með engu móti talið að fyrir þeim hafi vakað að reyna að kúga Alþingi eða að athafnir þeirra geti talist vera sú árás á þingið að sjálfræði þess hafi verið hætta búin.  Ber samkvæmt þessu að sýkna öll ákærðu af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga," segir í dómnum.

Hópurinn var einnig sýknaður af ákæru fyrir húsbrot og fyrir að hafa í félagi brotið gegn valdstjórninni. Þrjú úr hópnum voru fundin sek um brot gegn valdstjórninni og ein kona var fundin sek um að hafa óhlýðnast lögreglu.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert