Lítil hætta á olíuleka vegna kulda

Gámar fluttir úr Goðafossi yfir í pramma. Myndin er af …
Gámar fluttir úr Goðafossi yfir í pramma. Myndin er af vef norsku siglingastofnunarinnar.

Vegna þess hve kalt er í veðri í Óslóarfirði bendir margt til þess að ekki sé hætta á að meiri olía renni úr tönkum Goðafoss og ógni umhverfinu. 14 stiga frost er nú á svæðinu. 

Norska blaðið Aftenposten segir, að svartolían í tönkum Goðafoss sé nú þykk leðja, lík asfalti, vegna kuldans. að auki myndi kaldur sjórinn einskonar vatnslás í rifunum, sem komu á tankana.  

Blaðið hefur eftir Bjørn Richard Johansen, sem er ráðgjafi við björgunaraðgerðirnar, að margt bendi til þess að ekki þurfi að tæma olíuna úr skipinu áður en reynt verður að ná því á flot.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, hélt í dag heim til Íslands, að sögn Aftenposten. Blaðið hefur eftir forsvarsmönnum Eimskips, að 864 tonn af svartolíu séu um borð í skipinu í þremur tönkum. Í fjórða tankinum séu 96 tonn af dísilolíu en sá tankur er heill.

Byrjað var í morgun að flytja gáma úr Goðafossi yfir í prammann Eide. Annar prammi, Kristin D, er einnig notaður við flutninga. Reiknað er með, að 75 gámar verði fluttir í land fyrri partinn á morgun. Alls voru um 430 gámar í skipinu þegar það strandaði.   

Eivind Norman Borge, formaður bæjarstjórnar á Hvaler, segir að byggðin hafi í raun verið heppin með aðstæður þegar Goðafoss strandaði. Hefði vindur verið vestanstæður hefði getað farið mun verr því þá hefði olíuna rekið að eyjunum þar sem er afar viðkvæmt vistkerfi, meðal annars kaldsjávarkóralrif.

Þá sé einnig gott að vita, að olían í skipinu sé nú það þykk að ekki stafi af henni hætta.  

Hann segir að olía hafi náð landi á tveimur stöðum á Hvaler en auðvelt virðist að hreinsa hana þar. „Við höfum sloppið vel."   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert