Segir ríkisstjórnina þykjast hafa sigrað eigin grýlu

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta kemur í sjálfu sér ekkert á óvart. Þetta hefur verið notað sem grýla í öllum þessum Icesave-samningum af hálfu íslenskra stjórnvalda og annarra og hluti af hræðsluáróðrinum,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, um ákvörðun matsfyrirtækisins Moody's í gær að lækka ekki lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að svo kynni að fara ef síðustu Icesave-samningunum yrði hafnað í þjóðaratkvæði.

Þór segir að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi reist sér risavaxnar vindmyllur til þess að berjast við í aðdraganda þjóðaratkvæðisins og láti síðan nú, að þjóðaratkvæðagreiðslunni lokinni, eins og þeir hafi sigrast á þeim. „Það eru búnar til einhverjar grýlur og svo þykist fólk hafa sigrað þær í eftirleiknum. Maður getur ekki annað en hrist hausinn yfir þessari framgöngu,“ segir Þór.

„Þess utan þá geld ég varhug við því að íslenskir stjórnmálamenn, embættismenn og fjölmiðlar taki þessi matsfyrirtæki of hátíðlega. Það er einfaldlega ekki gert lengur úti í heimi. Þau eru ekkert tekin sérstaklega hátíðlega,“ segir Þór.

mbl.is