90% túna á sumum bújörðum eru kalin

Kuldinn gerir ekki greinarmun á ræktarlöndum og Akureyrarvelli, sem er …
Kuldinn gerir ekki greinarmun á ræktarlöndum og Akureyrarvelli, sem er illa kalinn. Eðvarð Eðvarðsson vallarstjóri virðir hér fyrir sér stóran kalblett á vellinum. Svona eru hundruð hektara í nærliggjandi sveitum. mbl.is/Skapti

„Þetta er trúlega versta kal í áratugi, síðan á kalárunum alræmdu. En það er frekar staðbundið, þetta er mjög slæma kal,“ segir Ingvar Björnsson ráðunautur hjá Búgarði á Akureyri.

Í Eyjafirði er tjónið mest í nágrenni við Árskógsströnd, í Skíðadal og síðan aftur í Suður-Þingeyjarsýslu í Fnjóskadal, Ljósavatnsskarði, Köldukinn, Bárðardal og Mývatnssveit. Þar að auki eru kalblettir í Reykjadal og Aðaldal.

Tjónið leggst mjög misþungt á bændur, sumsstaðar er nánast ekkert tjón, eins og í innanverðum Eyjafirði, en á þeim svæðum sem það er mest er „algengt að kal í túnum sé 70-90%,“ að sögn Ingvars.

Ástæðan fyrir þessu er að klaka hefur víða ekki tekið upp síðan í desember. Ef hann hylur gras í meira en þrjá mánuði má slá því föstu að kalskemmdir hafi orðið og koma nýlega endurræktuð tún einna verst út, enda viðkvæmust.

Ingvar segir að líklega þurfi að endurrækta, tæta eða plægja upp og sá, í 300-400 hektara lands í fyrrnefndum sveitum. Til samanburðar fer öll kornrækt í Eyjafirði fram á um 500 hekturum. 100-200 þúsund krónur kostar að rækta hvern hektara svo tjónið gæti hlaupið á bilinu þrjátíu til áttatíu milljónir króna.

Ekki hefur orðið vart kals í Húnavatnssýslum eða Skagafirði að sögn ráðunauta þar, nema helst í Fljótunum, þar sem kal er líklega talsvert, að sögn Eiríks Loftssonar hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga. Tröllaskaginn skilur á milli.

Óvíst með bætur fyrir tjónið

Kal fellur undir tryggingasvið Bjargráðasjóðs, skv. upplýsingum þaðan. Sjóðurinn greiðir bætur hins vegar löngu eftir á og miðar þær við hið raunverulega tjón sem verður, þrátt fyrir tilraunir til úrbóta. Þetta verður stór biti fyrir sjóðinn, sem fær 10 milljóna króna framlag frá hinu opinbera á ári og annað eins frá bændum. Ekki er heldur bætt fyrir meira en er til í sjóðnum, en hann er ekki stöndugur núna. Því er óvíst hve mikið af þessu fæst bætt.

Slær í milljón á einstaka bæ

„Þetta er verra hér en það hefur verið síðan 1999,“ segir Þórarinn Lárusson hjá Búnaðarsambandi Austurlands. Tjónið er mest rétt utan við Egilsstaði og á Jökuldal, en ekki er búið að fara um allt svæðið. „Hér var kal annað hvert ár á síðasta áratugi síðustu aldar og alltaf á oddatölu. Nú er oddatalan 2011 en við skulum vona að það sama gerist ekki aftur,“ bætir Þórarinn við.

35% túna voru kalin á einum bæ sem hann skoðaði í gær. „Tjónið gæti slegið upp í milljón krónur á einstaka bæ, en það er ekki gott að segja,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert