Steingrímur íhugi stöðu sína

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG. Eggert Jóhannesson

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, telur Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra þurfa að „íhuga alvarlega stöðu sína og í umboði hvers hann starfar“ í kjölfar útkomu skýrslu ráðherrans um endurreisn viðskiptabankanna.

Rætt er við Þór og Lilju Mósesdóttur þingmann í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag, þar sem hún setur fram þá kenningu að forgangsröðun í þágu kröfuhafa viðskiptabankanna umfram hagsmuni heimila og fyrirtækja hafi verið liður í að tryggja velvild Breta og Hollendinga. Forgangsröðunin hafi með öðrum orðum verið ein hlið á Svavars-samningunum sem hún kýs að nefna svo en þeim var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010.

Þór tekur undir þessa kenningu enda geti hún ein skýrt þær ákvarðanir sem voru teknar.

„Það er eina skýringin á því að þessi leið var farin. Að öðru leyti er þetta óskiljanlegt. Samfylkingin ber hér líka ábyrgð. Fjármálaráðherra er komin út á það hálan ís í störfum sínum og í svo langan tíma að honum er ekki vært í starfi lengur. Bankarnir voru afhentir kröfuhöfum á hraðferð í gegnum þingið í desember 2009. Það var engin umræða um að verið væri að einkavæða bankana og láta þá í hendur aðila sem engin vissi nokkuð um.“

Skýrslu ráðherra um endurreisn viðskiptabankana má nálgast hér.

Heimilin áttu að fá forgang

Athygli vekur að 22. desember 2008, eða skömmu fyrir búsáhaldabyltinguna, flutti Steingrímur þingræðu sem formaður stjórnarandstöðuflokksins VG um stöðu heimilanna og átaldi þar meint aðgerðaleysi í þeirra þágu. En nú ber svo við að Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, fullyrðir í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag, að þolinmæði samtakanna sé á þrotum. Má af henni skilja að stutt sé í að pottar og pönnur verði dregnar fram á nýjan leik.

Við þetta tækifæri varaði Steingrímur við landflótta en sú hefur einmitt verið raunin síðan efnahagshrunið varð, enda hafa hátt í 29.000 manns, íslenskir sem erlendir ríkisborgarar, flust af landi brott frá ársbyrjun 2008, að því er fram kemur í gögnum Hagstofu Íslands.

Orðrétt sagði Steingrímur:

„Ríkisstjórnin kynnti líka á hinum frægu karamellufundum sínum síðdegis á föstudögum með hálfs mánaðar millibili, held ég, meðan hún naut ráðgjafar norska hermála- og almannatengslafulltrúans sem kostaði örugglega eitthvað, annars vegar blað um aðgerðir til stuðnings heimilunum og svo seinna aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu.

Það var magurt svo að vægt sé til orða tekið hvort tveggja. Síðan hefur ekkert af því heyrst. Er eitthvað í fjárlagafrumvarpinu sem bendir til þess að ríkisstjórnin sé með einhverja heildstæða áætlun, einhverja hugsun, eitthvert „prógramm“ um hvernig styðja eigi heimilin í alvörunni í gegnum erfiðleikana og hvernig eigi ekki bara helst að halda atvinnulífinu á lífi heldur vonandi horfa til aukinna verðmætasköpunarmöguleika og allra tækifæra sem mögulegt er að nýta sem hefur aldrei verið okkur mikilvægari en nú, a.m.k. um langt árabil?

Það er því miður ekki, það er engu slíku til að dreifa hér. Stundum er sagt að það sé dýrt að vera fátækur og það er rétt. En leiðin út úr fátæktinni er þó að reyna eitthvað, reyna að bæta aðstæður sínar, reyna að afla tekna.

Hvað er það sem er mikilvægast af öllu fyrir Ísland núna? Það er að verjast atvinnuleysi og það er að verjast landflótta, það er engin spurning. Þær bráðustu hættur sem að okkur steðja og munu gera hlutina enn óviðráðanlegri ef mönnum tekst ekkert til í þeim efnum er að við missum atvinnuleysi upp úr öllu valdi og að ekkert rofi til í þeim efnum.

Það mun verða ávísun á landflótta fyrr eða síðar. Ef ekki tekst að draga upp það andrúmsloft að menn ætli að snúa sér af alvöru og kjarki í að takast á við þessa erfiðleika en ekki hrekjast undan eins og núverandi blessuð ríkisstjórn hefur gert fram að þessu lítur þetta satt best að segja því miður ekkert allt of glæsilega út hjá okkur, frú forseti. Það er dapurlegt að þurfa að segja það og horfast í augu við það.“

mbl.is