25 þúsund á vanskilaskrá

Vanskil hafa stóraukist frá hruni. Í lok apríl voru tæplega 25 þúsund einstaklingar á vanskilaskrá og hefur sá fjöldi farið hratt vaxandi sl. mánuði eða um rúman þriðjung síðan í mars 2009. 

Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem birt var nú síðdegis. Þar segir, að fjárhæð vanskila hjá heimilum sé nú um 11% af heildarútlánum stærstu viðskiptabankanna þriggja til heimila. Í heild nema útlán í vanskilum 21% af heildarútlánum til heimila og hefur hlutfallið lítið breyst sl. mánuði.

Gjaldþrotum og árangurslausum fjárnámum einstaklinga hefur  fjölgað verulega. Þau voru rúmlega 3400 árið 2009, um 4400 árið 2010 og fyrstu mánuðir ársins 2011 benda til þess að þau gætu orðið 9000 á þessu ári.

Seðlabankinn segir, að á sama tíma hafi fjöldi gjaldþrotaúrskurða einstaklinga lítið breyst og sé fjöldinn á ári ekki nema um þriðjungur af því sem var í upphafi aldarinnar. Gjaldþrot einstaklinga voru 112 árið 2009, 139 árið 2010 og stefna í að verða um 150 á þessu ári miðað við fyrstu fjóra mánuði ársins.

Segir bankinn, að birtingarmynd aukinna vanskila sé mikil fjölgun árangurslausra fjárnáma, sem kunni í einhverjum tilvikum að skýrast af auknum  innheimtuaðgerðum. Vísbendingar séu um að innheimtu sé í mörgum tilvikum lokið með árangurslausu fjárnámi.

Tæpur helmingur lána í vanskilum er þegar kominn í innheimtu eða gjaldþrot, um 8% eru í endurskipulagningarferli og um afganginn af þessum lánum ríkir
meiri óvissa.

Íbúðalánasjóður á 1069 íbúðir

Fram kemur í skýrslunni, að vanskil lánþega Íbúðalánasjóðs hafi farið vaxandi en lán í meira en 90 daga vanskilum námu um 73 milljörðum í lok síðasta árs eða 9,7% af heildarútlánum.

Þá hefur fasteignum í eigu sjóðsins fjölgað mikið. Í lok desember sl. átti Íbúðalánasjóður 1069 íbúðir til fullnustu krafna borið saman við 347 íbúðir í árslok 2009. Bókfært  verð fasteigna til sölu nam um 15 milljörðum í árslok en tæplega þriðjungur þeirra er í útleigu.

Ritið Fjármálastöðugleiki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert