Börn læri forritun með aðstoð tölvuleikja

Laufey Dís Ragnarsdóttir og Rakel Sölvadóttir.
Laufey Dís Ragnarsdóttir og Rakel Sölvadóttir.

Sköpun og hönnun tölvuleikja er leiðarstefið í hugmyndinni „Börnin í undralandi tölvuleikjanna“, en verkefnið hefur verið valið FRÆ ársins 2011. Hugmyndin miðar að því að hanna og þróa leiðir til að kenna forritun í formi tölvuleikja á fyrstu stigum grunnskólanáms.

Fram kemur í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík að verðlaunahafarnir séu þær Rakel Sölvadóttir og Laufey Dís Ragnarsdóttir, tölvunarfræðingar og sálfræðinemar. Þær stefni að því að 70% grunnskólabarna njóti forritunarkennslu innan þriggja ára, þ.e. fyrir mitt ár 2014.

„Fræ ársins er útnefnt árlega, en markmið þess er að styðja við frumstig nýsköpunar. Verðlaunafé nemur einni milljón kóna, auk þess fá vinningshafar niðurfelld skólagjöld í Viðskiptasmiðju Klaksins. Með þessu fá frumkvöðlarnir ekki aðeins fjárstuðning til að vinna að hugmynd sinni, heldur einnig það umhverfi, þá þjálfun og þann stuðning sem þarf til að fullgera viðskiptaáætlun og koma á fót starfandi sprotafyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert