Jarðeigendur fá milljónir vegna lyktarmengunar

Dómsalur.
Dómsalur. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt Hvalfjarðarsveit til að greiða jarðeigendum í Melasveit í Borgarfirði 6,6 milljónir kr. í skaðabætur vegna lyktarmengunar bæði af svínahúsum á Melum og af dreifingu svínaskíts á nágrannajarðir Melaleitis.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem var kveðinn upp á föstudag, eigandi Mela sé Stjörnugrís hf. en Melar og jörðin Melaleiti liggja saman. 

Þá segir að fyrirtækið hafi keypt jörðina 3. maí 1999 til að reisa á henni svínabú. Eftir að Stjörnugrís festi kaup á jörðinni Melum hófst vinna við deiliskipulag fyrir þann hluta jarðarinnar þar sem fyrirhugað var að reisa svínabúið. Því andmæltu jarðeigendurnir á Melaleiti.

Í dómi héraðsdóms segir að matsmenn hafi talið að gildistaka hins umdeilda deiliskipulags á jörðinni Melum haustið 1999 hafi orðið til þess að nýtingarmöguleikar jarðarinnar Melaleitis hafi skerst frá því sem áður var heimilt og þar með hafi jörðin rýrnað þannig að hún nýtist ekki til sömu nota og áður. 

Að áliti yfirmatsmanna var markaðsverðmæti jarðarinnar talið hafa numið 33 milljónum króna við gildistöku skipulagsins 23. ágúst 1999.  Verðmætisrýrnun jarðarinnar vegna skipulagsins telja yfirmatsmenn hins vegar varfærið og hóflegt að meta 20% eða 6.600.000 í krónum talið. Þannig hafi verðmæti jarðarinnar eftir gildistöku skipulagsins numið 26.400.000 krónum. 

Jarðeigendurnir héldu því fram að sýkingarhætta stafaði frá búinu og aukin umferð væri vegna flutninga til og frá búinu.

Þá segir dómari að án nokkurs vafa sé hægt að slá því föstu að lyktarmengun frá svínabúinu gagnvart Melaleiti sé veruleg og mun meiri en almennt megi gera ráð fyrir til sveita þar sem stundaður er landbúnaður.

„Skiptir þá engu sú viðbára stefnda að ekki hafi farið fram mæling á þessum umhverfisáhrifum. Samkvæmt þessu fellst dómurinn á þá niðurstöðu bæði í yfir- og undirmati að deiliskipulagið fyrir Mela vegna svínabúsins hafi rýrt verðmæti Melaleitis og verður tjónið talið sennileg afleiðing af gildistöku skipulagsins. Þá hefur ekki verið hnekkt niðurstöðu í yfirmati um verðmæti jarðarinnar og hlutfall verðrýrnunarinnar, en í því tilliti getur engu breytt þótt óviss atvik til framtíðar litið geti í meira eða minni mæli dregið úr umhverfisáhrifunum,“ segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is