Vildi ekki fljúga gegnum íslenska lofthelgi

Alistair Darling.
Alistair Darling. Reuters

Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, segir frá því í bók sem kemur út í dag að þegar hann var á leið heim frá fundi fjármálaráðherra G-7-ríkjanna í Kanada hafi hann skipað flugmanninum að fljúga ekki undir neinum kringumstæðum gegnum íslenska lofthelgi.

Darling fjallar töluvert í bókinni um samskipti sín við íslenska ráðamenn og segist á tímabili ekki hafa treyst neinu sem íslensk stjórnvöld sögðu honum.

Segist Darling fyrst hafa fengið veður af því í september 2008, að breska fjármálaeftirlitið, FSA, hefði áhyggjur af íslensku bönkunum. Honum hafi verið sagt að íslensk sendinefnd vildi eiga með honum fund. FSA hafði lagt mikla áherslu á að Darling hitti Íslendingana vegna þess að ekkert gengi að fá þá til að leggja meira fé til Landsbankans.

Darling segist hafa undrast hve íslenska sendinefndin var fjölmenn. Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, fór fyrir nefndinni en einnig voru í henni ráðuneytisstjóri hans,  embættismenn úr fjármálaráðuneyti, fulltrúar frá fjármálaeftirlitinu og fleiri. 

„Ráðherrann hélt langa tölu og kvartaði yfir viðhorfi FSA. Hann virtist telja að Ísland væri lagt í einelti. Fulltrúi fjármálaeftirlitsins talaði af mikilli mælsku og einnig í löngu máli, um styrk bankans og hve við værum ósanngjarnir. Mér var sagt, að þjóðarstolt væri á bak við Landsbankann. Ég velti því fyrir mér að ef þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hve staða Landsbankans væri slæm þá vissu þeir ekki hvað þeir væru að gera. Eða, að þeir vissu það.“

Darling segir, að Íslendingarnir hafi ekki unnið málstað sínum gagn með því að reyna að halda því fram að allt væri í góðu lagi. „Þessi fundur litaði öll síðari samskipti mín við íslenska ráðherra,“ segir Darling og bætir við, að Íslendingarnir hafi ekki komið hreint fram.

Darling fjallar um það þegar hann ákvað að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi, til að hindra að breskar innistæður hyrfu ofan í svarthol á Íslandi, og segir að það hafi verið óheppilegt, að lagaákvæðið sem beitt var hafi tilheyrt löggjöf sem fjallaði um varnir gegn hryðjuverkastarfsemi. Vegna þessa hafi verið hægt að túlka aðgerðir breskra stjórnvalda þannig, að þau litu á Landsbankann, og það sem verra var, á Ísland sem hryðjuverkasamtök.

Undir lok bókarinnar segir Darling síðan frá því, að þegar hann var á kosningaferðalagi vorið 2010 hafi hann þurft að ferðast í 10 tíma í lest frá Plymouth til Edinborgar vegna þess að eldfjallaaska frá Íslandi lokaði breskum flugvöllum.

„Ísland náði loks fram hefndum gegn mér,“ skrifar hann.

Bók Darlings nefnist Back from the Brink og fjallar um tímabilið þegar hann gegndi embætti fjármálaráðherra í Bretlandi, frá árinu 2007 til 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert