Kostir og gallar ESB-aðildar

Erfiðast verður að ná sáttum um sjávarútvegsmál í viðræðunum við …
Erfiðast verður að ná sáttum um sjávarútvegsmál í viðræðunum við ESB. Jim Smart

„Samanborið við íslensku krónuna er evran eins og klettur í hafinu,“ er haft eftir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, á vef BBC í gær. Þar er m.a. fjallað um endurreisn íslenska hagkerfisins eftir hrun og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Í greininni, sem skrifuð er af Paul Henley, er einnig haft eftir Gylfa að hann trúi því að það sé vinnandi fólki í hag að Ísland gangi í ESB, að hluta til vegna þess að landið er þegar aðili að EES en einnig vegna þess að „stöðugleiki evrunnar er slíkur að hann er ákjósanlegri en gengisflökt okkar eigin gjaldmiðils.“

„Síðastliðin 50 ár á Íslandi hefur krónan verið notuð til að flytja auðmagn, á hverjum tíu árum eða svo, frá verkafólkinu til atvinnurekendanna, fyrirtækjanna,“ er einnig haft eftir Gylfa.

Í greinni segir að kannanir hafi sýnt að flestir Íslendingar séu á móti Evrópusambandsaðild og m.a. haft eftir fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, að stærð landsins hafi verið veigamikill þáttur í endurreisn hagkerfisins. „Þú ert fljótari að snúa við litlum bát en stóru skipi,“ segir Steingrímur.

Fiskveiðar og einangrun

„Íslenskir veiðimenn vilja halda vinnunni sinni,“ segir Sigmar Óskarsson, íslenskur veiðimaður, í samtali við BBC, en í greininni kemur fram að sjávarútvegurinn sé helsti ásteytingarsteinninn í aðildarviðræðunum.

Þar segir enn fremur að íslenskir aðilar hafi fjárfest talsvert í sjávarútvegi í Evrópu, þá helst í Bretlandi og Þýskalandi, en útlendingum sé á sama tíma bannað að fjárfesta í stórum stíl í íslenskum sjávarútvegi. Ekki sé um jafnræði að ræða í þeim málum.

Hugsanlega verði þó einstök einangrun Íslands innan Evrópu það verðmæti sem Íslendingar muni síst vilja gefa upp á bátinn.

„Við tökum því sem sjálfsögðum hlut að við fáum sérmeðferð, ólíkt öðrum þjóðum. Við verðum alltaf krakkinn sem er útundan í bekknum af því að við erum svo lítil. Við erum ekki það mikilvæg. Við segjum: Þú getur ekki gert þetta, þú getur ekki tekið fiskinn okkar,“ er haft eftir Baltasar Kormáki, leikara og leikstjóra.

„Það er erfitt að berja á þeim sem virðist vera of veikburða til að vera laminn,“ bætir hann við.

Greinina í heild sinni er að finna á vef BBC.

mbl.is