Svartur og ljótur heimur

Ábendingahnappinn má finna á vefsíðu Barnaheilla og á saft.is.
Ábendingahnappinn má finna á vefsíðu Barnaheilla og á saft.is. .

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa tekið í notkun nýjan og endurbættan ábendingahnapp til þess að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu, sérstaklega þar sem verið er að sýna börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt eða beita þau kynferðislegu ofbeldi.

Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segist vonast til þess að fyrirtæki og stofnanir setji hnappinn á heimasíður sínar en samtökin vilja með þessu virkja almenning til þess að taka virkan þátt í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum á netinu.

Petrína segir ábendingahnappinn bægði fyrir tilkynningar um efni sem bókstaflega er ólöglegt, s.s. þar sem verið er að beita börn kynferðislegu ofbeldi, en einnig má nota hann til að tilkynna um óviðeigandi efni, s.s. meiðyrði, hótanir eða haturstal á vefsíðum.

„Netið er landamæralaust og ábendingalínan er hluti af erlendu verkefni sem við höfum tekið þátt í um tíu ára skeið; fólk lætur okkur vita ef það sér ólöglegt efni og síðan vinnum við það í samstarfi við ríkislögreglustjóra, netþjónustuaðila og ábendingalínur víða um heim,“ segir Petrína. Hnappurinn sé ekki bara fyrir íslensk mál og íslensk börn.

4.000 ábendingar á tíu árum

Um langt skeið voru tveir starfsmenn Barnaheilla í fullu starfi við að fara í gegnum þær 4 þúsund ábendingar sem til þeirra barst á tíu árum um efni þar sem börn voru sýnd á kynferðislegan hátt eða þau beitt kynferðislegu ofbeldi. Petrína segir þetta svartan og ljótan heim, sem einhverjir Íslendingar séu hluti af.

„Það hefur orðið til markaður fyrir þetta, sem er skelfilegt orð að nota í þessu samhengi,“ segir Petrína. „Með netinu hefur orðið til eftirspurn eftir efni þar sem verið er að beita börn kynferðislegu ofbeldi og það eru þó nokkrir Íslendingar sem taka þátt í að mynda þessa eftirspurn með því að neyta svona efnis en það er náttúrlega ólöglegt hér á landi; það er ólöglegt að niðurhala því og að dreifa því,“ segir hún.

Hún segir að þegar kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er kært til lögreglunnar sé jafnframt kannað hvort myndir hafi verið teknar af börnunum og það séu til dæmi um það hér á Íslandi. Því sé ekki hægt að útiloka að ólöglegt efni sem sýni íslensk börn hafi verið dreift.

„Hjá Interpol hafa þeir a.m.k. milljón myndir þar sem verið er að misnota börn og er talið að börnin á þessum myndum séu um 20 þúsund. Þó hafa vita þeir aðeins til þess að 800 þeirra hafi fundist og fengið aðstoð þannig að það eru tugþúsundir barna í Evrópu og Bandaríkjunum sem eru að þjást og fólk út um allan heim er að notfæra sér þjáningu þeirra,“ segir Petrína.

Hún hvetur fólk eindregið til þess að nota ábendingahnappinn ef það verður vart við óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert