Ekkert ferðaveður á heiðinni

Frá Hellisheiði. Mynd úr myndasafni.
Frá Hellisheiði. Mynd úr myndasafni. Ómar Óskarsson

Slæm færð og afleitt skyggni; hálka, snjókoma og hvassviðri er nú á Hellisheiði og varar Vegagerðin við því að þar sé lítið sem ekkert ferðaveður.

 Að sögn lögreglunnar á Selfossi hafa nokkrir bílar lent út af veginum, en engin slys hafa orðið á fólki og ekkert tjón orðið á bílum.

„Fimm bílar hafa ekið út af á svæðinu frá Kambabrún og vestur undir skíðaskálann í Hveradal,“ segir talsmaður lögreglunnar á Selfossi. „Svo eru að minnsta kosti fjórir í Þrengslunum.“

Að sögn lögreglu hafa ökumenn viðkomandi bíla fengið aðstoð, ýmist frá lögreglu eða frá þeim sem ekið hafa þarna um og þeir hafa fengið far með öðrum bílum, þannig að enginn hefur þurft að láta fyrirberast lengi í bíl sínum.

Lögregla segir að enginn bílanna, sem staddir eru utan vega, sé þannig staðsettur að hætta geti skapast af.

Vegagerðin saltar nú veginn en vegfarendur eru beðnir að sýna fyllstu aðgát.

mbl.is

Bloggað um fréttina